fimmtudagur, september 28, 2006
Las á mbl.is í morgun að það sé búið að smella hleranum niður, steipa upp í gatið. Í dag er Íslandi drekkt í þágu erlends stórfyrirtækis. Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast
mánudagur, september 25, 2006
Tímamót
Í gær var nákvæmlega ár liðið frá vörninni hans Marwan. Í tilefni dagsins fórum við fínt út að borða og skáluðum í kampavíni hjá honum Diep sem er einn af fínni kínversk/tælenskum veitingahúsunum hér í París. Þar gæddum við okkur á nem-rúllum, froskalærum, sólflúru og kjörstrimlum í engifer og hrísgrjónum, yndislega ljúft, djúpsteiktir bananar og gufusoðin kókosegg í eftirrétt, fullkomið.
Gær var líka fyrsti dagur föstumánaðarins Ramadhan, Marwan tekur þátt og borðar því ekkert þangað til ákveðið dagatal segir að megi borða. Þetta fer allt eftir sólsetri og er því breitilegt frá einum degi til þess næsta. Í dag má hann borða kl. 19:48 sem þýðir að ég verð tilbúin með eitthvað gott handa honum þá .... á mínótunni. Það er mikið ritual í kringum þetta allt saman. Klukknahringing í útvarpinu gefur einnig til kynna hvenær föstunni er aflétt á hverjum degi. Fyrsta vikan er erfiðust og svo venst þetta víst. Ég ætlaði einhverntíma að taka þátt með honum til að sýna samstöðu en komst hinsvegar ekki í gegn um fyrsta daginn. Þetta er eitthvað sem maður verður að alast upp við greinilega ;)..... er þetta kanski bara léleg afsökun hjá mér?
miðvikudagur, september 20, 2006
Íslendingar í Caen
Þessa dagana er alþjóðasýning, Foire Internationale í Caen Normandie, þetta svipar til stóru heimilis sýningarinnar í Laugardalshöll ef einhver man eftir henni, nema hvað á þessari sýningu eru vörur frá hinum ýmsu þjóðlöndum. Þetta árið er Ísland heiðursland sýningarinnar og fær svæði fyrir sig þar sem reynt er að minna á ísland einnig sem þar er að finna handverksfólk með sína muni.
Ég og Kristín Parísardama lögðum land undir fót og skruppum þessa 200 km í gær til Caen. Aðaltilgangur ferðarinnar var að fara og fá sér skyr, sem við fengum, reyndar einum of útþynt að mínu mati en gladdi líkama og sál. Bryndís sem vinnur hjá Icelandair var líka með okkur þar sem flugfélagið er með bás á sýningunni.
Á sýninguni voru m.a. Dýrfinna Torfadóttir með skartgripi gerða úr silfri og slípuðum fjörusteinum, stelpa sem heitir Hugrún Ívarsdóttir með skemtilegan laufabrauðsbás, Guðrún Ásgerður Steingrímsdóttir með muni úr hornum og beinum. Á þeim bás voru reyndar líka afar sérstakar skálar unnar úr hrúts og nautspungs- leðri. Einnig var Kirsuberjatréið með stórann bás, básar með ullarvörur, bæði hefðbundnar og þæfðar, roðveski og töskur, lítil bóksala með þýddum íslenskum verkum og einhverjar ferðaskrifstofur kyntu sig.
Mikið um fallega muni og ekki laust við að maður kæmist í forsmekk af jólaskapi enda slatti af jólavörum einnig sem tveir íslenskir jólasveinar stigu á stokk... sem er reyndar til frásögu færandi þar sem annar þeirra var Oddur Bjarni, sem ég hitti seinast að mig minnir á Suður Grænlandi eftir 4 daga labb yfir fjöllin frá Narsaq til Bröttuhlíðar þar sem var hann var að tyrfa nýju/gömlu Bröttuhlíðar kirkjuna.
Mikið þótti mér vænt um að sjá hann Odd þó svo það væri í mýflugumynd undir þessum furðulegu kringumstæðum og hann í þessum ótrúlega ullarjólasveina búning með rýtingslegt gerfiskegg.
Heimleiðin gekk vel og á Kristín hrós skilið fyrir keyrslu þennann dag. Þessarar keyrslu verður lengi minst með þakklæti sem ég ætla samt ekkert að fara of djúft ofaní, en þeir skilja sem eiga ;)
föstudagur, september 15, 2006
Náttúrufræðisafnið
Fonds Polaire bókasafnið er til húsa í náttúrufræði bókasafninu hér í París. Náttúrufræði húsið er statt í suðurenda grasagarðsins. Rannsóknarbókasafnið er uppi á efstu hæð í nýbyggingu með stórum gluggum. Vesturveggurinn er eitt gluggahaf og fyrir utan eru þéttar grænar trjákrónurnar svo nálægt að ekki sést í annað. Fyrir aftan afgreiðsluna er annar stór gluggi þar sem sést beint yfir á þak moskunnar í París og í hinum endanum teigir grasagarðurinn sig niður að Signu. Þar sem Fonds Polaire er til húsa innan bókasafnsins fer ég þangað oft til að vinna. Tek strætó að Signu enda grasagarðsins og nýt þess að labba í gegn um trjágöngin að bókasafninu.
Á þessu safni kennir margra grasa á öllum mögulegum tungumálum. Býst fastlegast við því að öll þau náttúru og grasafræði tímarit sem gefin eru út í heiminum séu samankomin á þessu safni. Rak augun einmitt einhverntíma í íslenskt tímarit sem hét örugglega “Náttúrufræðingurinn”. Allavega, í dag rakst ég á annað tímarit “Sexual plant reproduction”... í alvöru! er heilt tímarit gefið út um það efni?
miðvikudagur, september 13, 2006
I'm back
Ég er öll að koma til, hélt það reyndar í morgun líka var búin að hita morgun teið mitt og rista brauðið mitt og rétt byrjuð að narta þegar ég hljóp inn á klósett og gubbaði eins og vitleisingur. Sjálfsagt bara full af einhverjum slímviðbjóði eftir nóttina. Staulaðist skjálfandi til baka og reyndar kláraði morgunmatinn minn sem fyrir mér er heilagasta máltíð dagsins og án hans er ekkert gert. Lagðist aftur upp í rúm og svaf í 3 tíma. Ég er orðin stálslegin, ætla út að labba og koma síðan heim og þrífa allt veikindarandrúmsloft í burtu og fylla húsið af ferskleika.
Skjótum bata er að þakka... rúmum 3 lítrum af vatni auk nokkurra tebolla, hef óbilandi trú á vatni handviss um að maður geti læknað heilmargt með því að skola líkamann að innann og skipta út hinu óhreina fyrir hið hreina. Kvöldmáltíð með miklum hvítlauk, varð bæði til að gleðja mig yfir að finna bragð af matnum mínum og hefur eflaust drepið vel af þessum kvefófögnuði. En útlsagið gerði sjálfsagt sú upplifun að horfa á Derrik á frönsku. EKKI annann dag fyrir framan sjónvarpið. Þetta var ógnvekjandi upplifun sem ég óska engum að reyna.
:) takk fyrir bataóskir og hlýjar hugsanir, þær gerðu sitt gagn líka. Svo er það bara að taka íslenskar þaratöflur og vona að þetta endurtaki sig ekki.
þriðjudagur, september 12, 2006
Jibbý
Búin að ná mér í einhverja kvefdrullu og hálsbólgu. Rétt fyrir hádegi í gær byrjaði hnerrinn, í gærkvöldi kom svo hálsbólgan vaknaði kl. 5 í nótt og það var ekki lengur um að villast.
Dagurinn í dag verður semsagt haldinn hátíðlegur í náttfötum með trefil og heitt sítrónu-hunagns-te dottandi fyrir framan sjónvarpið. Ef þetta dugar ekki þá skelli ég í mig heitu romm kakói fyrir svefninn. Held að þetta ætti að duga til að vera aftur orðin góð á morgun.
laugardagur, september 09, 2006
Gullnu bogarnir tveir
Afleysingar þessa vikuna og um helgina er ég að vinna 8-20 bæði laugardag og sunnudag og þar sem Marwan er þar að auki úti í Kaíró nenni ég enganvegin að standa í strórræðum hvað eldamensku varðar. Kom við á McDo á leiðinni heim úr vinnunni núna áðan og keypti mér Indverska kjúklingasamloku og sallatdollu með. Þar sem ég gat ekki hugsað mér að allt angaði af McDo lykt heima tók ég frekar þann kostinn að borða á staðnum.
Laugardagskvöld og þetta var greinilega staðurinn til að hanga á, ég kom mér fyrir í einum innsalnum þar sem ég fann laust borð. Þónokkuð mörgum borðum fyrir aftan mig voru tveir hópar unglinga þar sem í voru einstaklingar með þennan óþolandi úthverfa talsmáta og töluðu eins og þeir væru staddir hvor í sinni öræfasveitinni með fjöll og fyrnindi í kring um sig.
Kanski er ég bara þreytt og fúl en þarna var ófullkomin máltíð gersamlega eyðilögð.
Komin heim, búin að taka osta út úr ískápnum og geri mig tilbúna til að horfa á tvöfaldan skamt af LOST. Kvöldinu er enn viðbjargandi.
fimmtudagur, september 07, 2006
þriðjudagur, september 05, 2006
Sumarauki
September byrjar yndislega eins og alltaf. Eftir 4 ár í París get ég farið að tala um reglu frekar en undantekningu að þessi mánuður er góður og einn af þeim bestu ef út í það er farið. Laufin eru rétt byrjuð að taka lit og þessi haust rói á undan vetrinum. Parísarbúar snúa aftur, bakarí og búðir sem hafa verið lokaðar vegna sumarleifa ágústmánuð opna aftur, fullar af nýjum vörum. Lífið tekur á sig gamalkunnan rythma og sólin skín sínu blíðasta. Þessa vikuna liggur hitinn reyndar í 30°c hér í París sem er kanski í það heitasta þegar sólin bætist þar ofaná.
Þessa vikuna er ég líka að vinna aukavaktir á hótelinu. Þar er hópur íslendinga í nokkra daga sem finst alveg geggjað að hafa landa sinn í gestamótökunni og nota sér það óspart til að spyrja út í hina ýmsu hluti, ekkert nema gott um það að segja, gott þegar maður getur liðsint fólki. Þetta er hópur á vegum Parísardömunnar, ég sé það í bókunarkerfinu okkar að það eru alltaf fleiri og fleiri íslendingar sem panta á hótelinu eftir að hún bætti því á listann sinn. Þetta verður orðið að einu alsherjar íslendinga hóteli innan tíðar.
Lenti annars í því um daginn að læsa kortinu mínu. Var að borga á kassa í Monoprix (Hagkaup) og þar sem hér í Frakklandi þarf maður að slá inn PIN númerinu sínu í hvert skipti sem maður borgar með kortinu er eins gott að muna það. Ég hinsvegar, sá íslendingur sem ég er borga alltaf allt með korti og hélt ég kæmist aldrei í þá stöðu að gleyma númerinu. En jú, kemur fyrir á bestu bæjum sló inn einhverja vitleisu ... viss um að það væri rétta talan og kortið læst í viku!