mánudagur, ágúst 28, 2006

Latínuhverfið

Áttum rólega og góða helgi, fórum í Boulogne skóglendið í útjaðri Parísar í gær og áttum ljúfa stund fjarri sírenum og ys og þys borgarinnar. Löbbuðum í kringum vatnið og lögðumst í grasið og hlustuðum á náttúruna. Yndislegt.
Létumst reyndar platast á fimtudagskvöldið. Fórum út að borða í latínuhverfinu sem ekki er hægt að mæla með. Förum reyndar oft á þessar slóðir en bara til að rölta eða setjast á kaffihús eða pöbb með verönd, mannlífið er fjölbreitt og gaman að horfa í kringum sig. Þetta er hinsvegar mikið túrista svæði þannig allt gengur út á peninga og gróða. Maturinn er semsagt ekki sá besti sem maður fær í París. Við vissum þetta vel, en héldum að við værum orðin svo sjóuð að við gætum valið úr almennilegt veitingarhús. Þau eru hinsvegar öll svipuð. Þú ert að kaupa andrúmsloft en ekki mat, sem er af hverju ég mæli frekar með hverfinu til að fá sér rauðvínsglas. Ekki það að maturinn hafi verið vondur... bara rosalega miðlungs án nokkurs nosturs og ekki það sem maður er beint að leita eftir þegar farið er út að borða.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Kóngulær

Gatan okkar er markaðsgata þar sem flestir ávextirnir og grænmetið kemur frá Spáni og Afríku. Mig er hinsvegar farið að gruna að með þessum vörum komi hinir ýmsu laumufarþegar.
Kvöld eitt fyrir nokkrum mánuðum síðan var risakónguló niðri við útidyrnar á jarðhæð. Ég hugsa enn til þess með hryllingi. Við komum heim seint að kvöldi til, rétt komin inn í sameignina niðri teigði ég út hendina til að kveikja ljósið. Um 3cm frá hendinni á mér sá ég þá stærstu kónguló sem ég hef nokkurtíma séð. Hún var hvorki feit né loðin en svipuð á stærð og hendin á mér. Ég mynnist þess enn í hvert skipti þegar ég kveiki ljósið þarna niðri. Hvað ef? ef hún hefði setið á kveikjaranum og ég hefði þríst puttanum á mér ofan á búkinn á henni? Ég fæ hroll.
Í dag sá ég svo aðra, á gólfinu fyrir neðan póstkassann. Hún var langt því frá jafn stór og hin. En leit grunsamlega framandi út.
Við búum á 3 hæð (íslenskt taið) sem róar mig að einhverju leiti. Einnig sem afrískar kóngulær tóra sjálfsagt ekki lengi í frönsku loftslagi. Ég er hinsvegar ekki mikill skordýra vinur og er enganveginn róleg yfir þessu öllu saman. Vona bara ég fari ekki að fá martraðir út af þessu.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Kuldakast

Hér er búið að rigna í rúma viku. Og það hellirigna á evrópska vísu. Bændur eru reyndar hæst ánægðir, vínuppskeran loksins að taka við sér. Mér finst rigningin líka góð, sérstaklega miklar dembur sem hreynsa loftið og rykið á götunum. En þessari fylgir fullmikill kuldi. Sá einhverjar fréttir um það að hitinn hefði farið niður í 16°c í París sem hefur ekki gerst í ágústmánuði síðan 1940 og eitthvað. Ég er búin að taka fram sængina mína aftur!
Þó svo Íslendingum þyki 16°c í ágúst engar hamfarir þá verður maður að líta á allt í samhengi og hér heldur fólk því fram að haustið sé komið sem venjulega lætur ekki kræla á sér fyrr en í enda september.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Ísraelskum hermönnum heimilt að stela sér til matar

Í morgunblaðinu í dag er eftirfarandi frétt;

Avi Mizrahi, hershöfðingi í Ísraelsher, hefur lýst því yfir að ísraelskum hermönnum í Líbanon sé heimilt að stela matvælum úr verslunum þar. „Ef hermenn okkar eru langt inni á yfirráðasvæði Líbana og matar eða vatnslausir þá tel ég að þeir megi brjótast inn í verslanir á svæðinu og leysa þar með vandann,” sagði Mizrahi en ísraelskir hermenn hafa að undanförnu kvartað undan skorti á vistum á vígvellinum í Líbanon.
Og ef þeir eru of langt að heimann meiga þeir þá bara taka næstu konu til að leysa þann vanda líka?
Kom það líka einhverjum á óvart að ísraelar hafi einungis nokkrum klukkutímum eftir vopnahléið hófst skotið á hóp manna sem kom í áttina að þeim og virtust ógnandi.
Ég ætla ekki að taka málstað Hizbollah, enda er það erfitt, en yfirgangurinn og frekjan í ísraelum er bara svo yfirgengileg að maður fær alveg nóg. Allt er þetta svo gert með sammþykki eina stæðsta stórveldi heims, sem svosum getur lítið annað.
Eftir þessa syrpu er ég búin að missa allt álit á Ísraelum. Ég dáist hinsvegar að þolinmæði líbönsku þjóðarinnar, bæði gangvart hizbollah og Ísraelum, kanski er ekki um aðra kosti að ræða. Hurrrr! ég finn hvernig líkaminn á mér fyllist af neikvæðri orku við að velta mér uppúr þessu. Ég þarf að komast út að hlaupa til að hrista þennann sora af mér. Svo er það að krossa fingur og vona að ísrelarnir setji tippið á sér aftur ofan í nærbuxurnar og haldi því þar.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

10 ágúst 2006

Marwan flaug seint í gærkvöldi til Ástralíu þar sem hann er að fara á alþjóðar ráðstefnu landbúnaðar hagfræðinga í Brisbane. Fór í loftið frá London Hethrow rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi 09.08.06 en verður ekki kominn til Ástralíu fyrr en rétt eftir miðnætti í kvöld eða þann 11.08.06.
10 ágúst 2006 verður því eiginilega ekki til hjá honum! Hann mun hinsvegar fá tvöfaldan skammt af 22. ágúst!
Hryngdi í mig frá Singapore rétt áðan þar sem verið var að fylla á vélina og þrífa hana. Hafði sem betur fer ekki hugmynd um hvað var í gangi á Hethrow, hefur sjálfsagt bara rétt sloppið við allar varúðarráðstafirnar. Mikið verður samt gott þegar hann er loksins kominn á leiðarenda.
Í Ástralíu er hinsvegar vetur núna. Þó svo það fari upp í 20°c á daginn þá er komið myrkur um fimmleitið og kvöldin eru svöl. Hann fór því með íslenska varmasokka og flíspeysu með sér og ætti ekki að verða kalt.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Travelling without moving

Sviminn stafar víst af þreytu og streitu í of miklum hita. Ég fékk uppáskrifað á mánaðarskamt af einhverjum pillum sem eiga að kippa þessu í lag. Jafn illa og mér er við að taka einhverjar pillur þá er ég ánægð að þurfa ekki að fara í meðferð hjá þessari sérfræðistofnun sem ég fór á í gær. Fyrir klukkutíma af prófunum þar sem var sullað vatni inn í eyrun á mér, annaðhvort heitu eða köldu og svo sett svört gleraugu yfir augun á mér með myndavélum sem námu augnhreyfingarnar sem sjálfsagt flögtu vel, mér snúið í hringi, eða ítt til hliðar og alltaf var gleraugunum smellt á augun á mér á eftir, var mér boðið að borga 140 evrur !
Ég skil núna betur öll málverkin inni á biðst0funni!!
Þó mér hafi ekki liðið neitt sérlega vel eftir þessar meðfarir fór ég samt út með tveimur íslenskum stelpum í gærkvöldi. Fórum út hér í Bastilluhverfinu og fengum okkur að borða á Café Divan á rue de la Roquette, drukkum svolítið af hvítvíni og blöðruðum framyfir miðnætti. Gerði hellings gott.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Staðbundinn jákvæður svimi

Seinustu daga hef ég verið með mjög undarlegann svima. Alltaf viss um að þetta muni líða hjá af sjálfu sér gerði ég ekkert í því. Í gær druslaðist ég svo loksins til læknis. Eftir ég útskýrði fyrir henni mína sögu sagði hún mér að ég væri líklegast með staðbundinn jákvæðann svima... það er að segja góðkynja svima sem stafar af korni eða einhverju inni í jafnvægisgöngum eyrnanna. Á mánudaginn á ég svo pantaðann tíma hjá einhverri eyrna-sérfræði stofnun þar sem ég verð strengd niður á planka og svo snúið á haus til að losa um!!! Ef ég þekki mín líkamlegu viðbrögð rétt munu þessar tilfæringar vekja upp alvarlega flökurtilfinningu. Ég bara vona þar sem munnurinn verður fyrir ofan nefið að ég hagi mér skikkanlega.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Monet Monet Monet



Mamma og pabbi farin aftur. Þema ferðarinnar ef eitthvað er hægt að velja var Monet. Fórum í nýoppnað Orangerie safnið þar sem stóru vatnalilju verkin eru en safnið hefur verið lokað seinustu 10 árin vegna viðgerða. Vatnaliljusalurinn er stórkostlegur. Náttúrulegt ljós skín inn um stóra ávala þakgluggana sem huldir eru með grisju sem mildar ljósið. Upplifunin var ótrúleg. Nokkrum dögum síðar fórum við svo og heimsóttum garðinn sem var uppspretta svo margra málverka hans, meðal annars vatnalilju verksins. Garðurinn er í Giverny litu þorpi sem liggur niður með Signu í Normandie héraðinu. Eins og mamma sagði, það er sjaldan sem maður upplifir það að ganga inn í málverk. Við misstum okkur í myndatökum þó svo rigningin hefði dunið á okkur. Við höfum sjálfsagt verið á besta tíma til að heimsækja garðinn þar sem vatnaliljurnar eru í blóma en ég er strax farin að hlakka til að fara aftur í garðinn í haust þegar laufin á trjánum fara að roðna og gulna.
Annars var dvöl þeirra hér mjög ánæguleg, heimsóttum Pére Lachaise kirkjugarðinn.. einning í hellirigningu, löbbuðum um götur Parísar, borðuðum kanínur, endur og snigla á franska vísu. Fórum einnig til Rambouillet, lítið þorp suð-austur af París, stoppuðum í Versölum á leiðinni heim og borðuðum á verönd með útsýni að höllinni.
Við áttum semsagt verulega notalega viku saman, mikið er gott að eiga góða foreldra sem maður nýtur hverrar mínótu með :)
Myndir sem oft segja meira en mörg orð koma bráðlega inn á ofoto
eXTReMe Tracker