þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Útstáelsi - Kæruleysi

Búin að vera á meira útstáelsi þessa seinustu daga en venjan er orðin. Hver stund sem ekki fer í að sitja yfir ritgerðinni fer orðin í samviskubit yfir að vera ekki að vinna. Vorum boðin í mat á laugardagskvöldið til vinarfólks okkar og áttum ljúfa kvöldstund yfir spjalli, hlátri og mat sem fínu veitingarhúsin hér í borg gætu verið stolt af. Sonur þeirra 4 ára sá svo um skemtiatriðin, brúðuleikhús, söngur og töfrabrögð, alger rúsína og verður gaman að fyljgast með honum í framtíðinni.
Á morgun er það svo Kaupmannahöfn. Marwan er reyndar eitthvað stressaður, allt vitlaust að gera í vinnunni. Ég hélt reyndar á sunnudaginn líka að ég væri að verða veik, kvefstíbluð með höfuðverk og kommur en það gekk yfir á sólarhring. Veit ekki hvort afneitunarkrafturinn er svona sterkur eða hvort þetta var bara dagspest.
Við stefnum hinsvegar ótrauð á flugvöllinn á morgun þrátt fyrir rigningarspá í Köben, yfirvofandi kvefpest og fjarvinnu Marwans af hótelinu sem by the way við erum ekki enn búin að bóka. Veit ekki hvort um er að kenna tímaleysi, kæruleysi eða einhverju öðru. "Den tid den sorg" Kanski er ég bara að koma mér í danska gírinn.

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

London París Kaupmannahöfn Lundur


Þessir nokkru dagar í London gerðu okkur gott. Fórum keyrandi með Regis og Maríu, tókum því ferjuna yfir sem gerði þetta að miklu meira ferðalagi heldur en ef við hefðum bara tekið lestina. Leituðum uppi breskann mat, cottage pie með brúnni sósu og jacket potatos, crumbles og spunges í eftirrétt með heitri vanillu sósu. Kanski er ég bara svona sveitó, en mér þykir þetta góður matur, þó svo ég væri ekki til í að borða hann á hverjum degi. Eyddum dögunum í sambland af túrisma, notalegheit, át, labb og uppgötvanir. Fórum á jass tónleika og svo að sjálfsögðu Brick Lane þar sem við vorum heppin með veitingastað og borðuðum hið ágætasta curry. Ein af helstu áhugasviðum Marwan eru matur, eldamennska og að kaupa í matinn. Við fórum því í nokkrar kjörbúðir til að skoða úrvalið og í einni lítilli hverfisbúð rétt við hótelið rakst ég ekki á Prince Póló! Í Bretlandi eins og á Íslandi er mikið af pólskum verkamönnum og því er hægt að finna þónokkuð orðið af pólskum matvörum. Ísland er því ekki lengur eina landið sem Prince Póló er flutt út til.

Nú er ég hinsvegar orðin grasekkja eina ferðina enn. Marwan flaug út áðan og kemur ekki heim fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku. Þá er ekki nema tæp vika í að við fljúum til Kaupmannahafnar þar sem við ætlum að slæpast í nokkra daga áður en við förum yfir til Svíþjóðar í littlujóla party til Brynju og Valla.

Komin með flugmiðana en ekki hótelið þannig ef einhver veit um gistingu í Köben á skikkanlegu verði þá tek ég gjarna við ábendingum.

eXTReMe Tracker