miðvikudagur, maí 31, 2006

Meira af Kólesteróli

Jæja, þá er þessi blessaða læknisskoðun yfirstaðin. Niðurstöðurnar úr kólesterólmælingunni um daginn sýndist mér vera í hærri kantinum. Meira að segja rétt yfir hærri mörkum. Total 6,22 mmol/l þar sem mörkin eru 3,35 - 5,93. Ég var því búin að fara á netið og fræða mig um rétt kólesterólmataræði þar sem ég komst að því að ríkast af kólesteróli eru eggjarauður, eitthvað sem flestallir vita, og kavíar!!! Ég hafði ekki hugmynd um það! 2 ristaðarbrauðsneiðar með kavíar á hverjum morgni og svo vel af honum með harðsoðnum eggjum þegar þannig stóð á mér! Útkoman ætti því ekki að koma á óvart. Ég er semsagt búin að stíga á kavíarbremsuna og einset mér að lækka hlutfallið fyrir næstu skoðun eftir hálft ár.
Lækninum mínum þótti stórmerkilegt að heyra að ég borðaði kavíar í morgunmat á hverjum degi. Get ímyndað mér að þetta sé eitthvað sem hún eigi eftir að segja frá í næsta saumaklúbb. Hún fór strax á netið til að flétta upp kólesterólmagni kavíars og staðfærði jafnundrandi og hún var yfir óhefnlaðri inntöku minni á afurðinni að það væri meira af kólesteróli í kavíar en í fois gras, og þótti greinilega mikið til koma.
Hún sendi mig heim með matvöru bannlista, á honum er innmatur og slátur, smör og sýrður rjómi, feitar pylsur, pate, mjög feitt kjöt, egg (max 3 á viku) einnig sem ég þarf að passa mig á osti, 30-40 gr. max á dag. Það merkilega er að ég borða lítið sem ekkert af öllum þessum matvörum, nema kanski ostinum, sem ég mun eiga erfitt með að passa mig á. Sökin liggur því líklegast í kavíarnum, sem listinn minnist ekkert á, né rækjur, sem ég hef heyrt líka að séu mjög kólesterólríkar.
Hinumeigin á listanum eru svo "Aliments á privilégier" það er að segja góði listinn. Allar léttar mjólkurvörur, magrar kjötvörur, fiskur, grænt grænmeti og olíur. Það er hinsvegar ekkert minnst á vín! Getur einhver sagt mér er vín ekki örugglega kólesteról lækkandi? hvítt/rautt? Hvað með bjór? Allar tillögur eru vel þegnar.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Aligre

Fyrir nokkrum mánuðum eignuðumst við nýjan nágrana. Konu milli 40 og 50. Ljúfasta kona þannig séð. En undanfarnar 2 vikur hafa furðuleg hljóð farið að berast frá íbúðinni hennar. Eitthvað sem maður getur ímyndað sér (ef maður hefur horft á of margar vísinda skáldsögur) að séu samskipti geimvera. En er sjálfsagt bara tölfuleikur sem hún hefur eignast. Málið er hinsvegar að hún byrjar fyrir 7 á morgnana! Þar sem allt heyrist hér milli íbúða er eins og hún sitji á rúmstokknum hjá okkur, kling klung, kliiink kluuunk klinkunk klingkluuunk!!

Hún er portugölsk og ég veit að hún mun fara til Lissabon í 3 mánuði í sumar. Spurning hvort við þolum þetta þangað til hún fari og vonumst annaðhvort til að hún verði komin með leið á leiknum eftir sumarið eða að við verðum flutt þegar hún kemur til baka. Eða hvort ég fari og banki uppá hjá henni og biðji hana um að lækka í græjunni svona í morgunsárið allavega.

Ekki það að það sé venjuega ró og friður hér í morgunsárið. Nú er verið að taka götuna í gegn, sem þýðir að markaðurinn hefur verið fluttur út á torg þannig að við erum laus í bili við stússið sem fylgir því þegar honum er komið upp um klukkan 5 á hverjum morgni. Hinsvegar byrja þeir á loftpressunni rétt fyrir átta.

Hér eru tvær fyrir og meðan myndir, eftir myndin kemur þegar allt er tilbúið. þetta á að taka um 3 mánuði segja þeir. Þá verður gatan orðin hellulöggð og rosa fín.

föstudagur, maí 26, 2006

Sætabrauð af læknisráði

Heimilislæknirinn minn er rosa "dugleg" kona um fimtug sem vill gera sína vinnu vel. Sem betur fer á ég ekki oft erindi við hana, en tvisvar á ári þarf ég að fá uppáskrifað á pilluna. Sem hún neitar harðlega að gera í gegn um síma. Í þeim heimsóknum er tekinn blóðþrýsingur, krabbameinsstrok, viktun og almennt viðtal. Einnig sem hún bendir mér á að láta mæla kólesterol í blóði og koma með þær niðurstöður í þessar heimsóknir. Þar sem ég þarf að panta mér tíma hjá henni á næstu dögum fór ég í blóðprufu í morgun.... á fastandi maga að sjálfsögðu. Fyrir mér er það stórmál að gera nokkuð á fastandi maga, hvað þá ef ég þarf að yfirgefa húsið án þess að borða. Ég fór semsagt fyrir átta í morgun á rannsóknarstofu hér í hverfinu og lét taka blóð. Var síðan sagt að fara heim og borða velútilátinn og vel sykraðann morgunverð og koma aftur einum og hálfum tíma seinna í aðra prufu. Það þýddi ekkert að borða bara eina brauðsneið og te glas, og sykrað skildi það vera. Af læknisráði keypti ég mér því marsipanbakað súkkulaði hveitihorn á leiðinni heim.
Ég skipti teinu mínu út fyrir sykrað mjólkurkaffi, setti vel af mömmugerðri aðalbláberja sultu á ristaða brauðið mitt og inn í venjulegt hveitihorn sem ég keypti líka. Pressaði 2 appelsínur til að fá ávaxtasykur og réðst svo til atlögu við flórsykursstráða marsipanbakaða súkkulaði hveitihornið. Ég verð nú að játa að mér leið ekkert rosalega vel á eftir þetta alltsaman, hvorki líkamlega né andlega og finst háffyndið að þetta hafi verið gert af læknisráði.
Eftir seinni blóðprufuna fór ég í labbitúr til að reyna að flýta fyrir að sykurinn leisist út, ekki hugmynd um hvort það virkar þannig, en endaði með að "lenda í" að kaupa nýtt bikíni ... og leið mun betur á eftir.
Útkoman út blóðprufunni verður svo tilbúin seinnipartinn og ég get komið og náð í hana.
Veit ekki hvort einhverjum finst þetta mikið stúss. Allavega þótti mér það svona fyrst og alveg óþarfi að vera með mann undir þessari smásjá. Enda ekki vön svonalöguðu frá heimilislækninum mínum á Akureyri, sem skrifaði upp á pilluna fyrir mig án þess að nokkurtíma spyrja mig nokkura spurninga eða taka blóðþrýsting hvað þá annað. Þegar ég fór að kvarta undan þessu hérna heimavið benti Marwan mér á hversu margar konur í heimunum myndu vilja vera í mínum sporum en vegna aðstæðna ættu ekki kost á að láta fylgjast svona vel með sér.
Oft gerir maður sér ekki grein fyrir hversu gott maður raunverulega hefur það.

þriðjudagur, maí 23, 2006

2 út að borða og 1 sinni í bíó

Miðvikudeginum var spáð sem besta degi vikunar. Til að njóta kvöldblíðunnar hittumst við eftir vinnu, löbbuðum um og nutum þess að vera saman þegar allt í einu fóru að detta dropar. Sá skúr fór yfir á 5 mínútum en rigningin lá í loftinu og umhverfis okkur drundi í þrumum í kvöldhúminu og eldingar sem teigðu sig þvert yfir himininn. Til að skýla okkur fyrir yfirvofandi hellidembu fundum við okkur lítinn veitingastað þar sem við gátum setið úti á veönd undir tjaldskyggni. Lítill veitingastaður sem lætur ekki mikið yfir sér en er kominn á lista yfir uppáhalds veitingastaði. Marwan fékk sér kanínu með sinnepssósu og ég fékk mér sveitasallat með steiktum kartöflum, hráskinku, tómötum og ostbitum og verulega veglega skamtað. Þessu var svo skolað niður með vínglasi, fyrir hjartað. Rigningin sem við bjuggumst við lét hinsvegar ekki sjá sig, þrumurnar hjöruðu smásaman út og við löbbuðum heim.
Fimtudagskvöldið fór að sjálfsögðu í Eurovision áhorf, þar sem ég sat og gaf hverju lagi skriflega umsögn, Marwan til mikillar skelfingar. Frönsku kynnarnir höfðu nú bara gaman af henni Silvíu. Stærsti Eurovision áhorfendahópurinn hér eru samkynhneigðir karlar og ætli hún falli ekki inn í þann kitch stíl sem þeir eru að fíla margir hverjir.
Marwan var með fund snemma á föstudagsmorguninn og losnaði því snemma úr vinnunni. Við fórum því á eftirmiðdagssýningu á DaVinci Code. Ég var nú bara spent á köflum þó ég hafi lesið bókina. Við vorum nú bara ánægð með hana. Ég veit ekki hvort þessi slæma ganrýni er af því fólk er í alvörunni svona viðkvæmt fyrir hugmyndinni um Jesús sem mann og boðbera guðs en ekki sem guð sjáfann.
Eftir bíó nentum við enganveginn í kjörbúð og svo heim að elda þannig við við enduðum kvöldið á kræklingastað og löbbuðum svo heim.
Marwan er núna farinn í rúma viku til Kaíró. Ég er því ein í kotinu næstu daga og mun einbeita mér að ritgerðinni milli þess sem ég skoða húsnæðisauglýsingar. Mér sýnist eitthvað vera að glæðast á þeim markaði og löngu kominn tími á að við hugsum okkur til flutnings, eins gott að fylgjast með ef eitthvað gott kemur inn.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Buttes Chaumont

Búin að draga fram sandala og opna skó. Stígvélin og annar lokaður skófatnaður eru komin innn í skáp og bíða næsta vetrar. Tók fram m.a. dökkbláa leðursandala sem ég keypti eihverntíma á Akureyri með mömmu. Rosalega þægilegir, sem er afhverju ég keypti þá. En hef aldrei notað þá mikið þar sem mér hefur alltaf fundist þeir eitthvað svo "konulegir"... þangað til núna!!!

Annað hálf scary atvik var á sunnudaginn. Við tókum íbúðina í gegn og vorum langt komin þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég var enn á hælum!!! Ég veit ekki hvort þetta er aldurinn... París ... eða?? Allavega, maður lætur greinilega ekki sjá sig þrífa nema á hælum!





Uppgötvuðum nýjann garð um helgina. "Parc des Buttes Chaumont" með fylgja nokkrar myndir þaðan. Rosalega fallegur garður þar sem einhverskonar hof trónir hæst upp á kletti. Þar er líka lítill foss, sá eini í París. Rosalega var notalegt að hlusta á litla niðinn hans. Ég fékk tár í augun af söknuði til náttúrunnar. Það er augljóst mál að ég er ekki það sem kallað er borgarbarn. Þar er líka hellir með dropasteins útfellingum í loftinu. Semsagt, frábær garður og verður á dagskrá fyrir íslenska ferðamenn í París.





Þegar við komum út úr garðinum var eitthvað afrískt tjútt þar í gangi. Trommusláttur, lúðrablástur og konur sem dilluðu veigamiklum afturenda af mikilli kunnáttu.

Enduðum svo á að fara og sjá Mission Impossible III, verða ekki allir að fara og sjá þessa?

miðvikudagur, maí 10, 2006

Norðurslóðir í myndum

Fékk fyrirspurn um viðfangsefni ritgerðarinnar minnar. Veit að það eru fleiri ekki alveg með á nótunum í þeim efnum og ákvað því að tileinka þessari færslu því viðfangsefni. Gaman annars að vita að fólk er að fylgjast með. Það er náttúrulega lesturinn sem gefur blogginu gildi.

Í ritgerðinni minni blanda ég saman sjónrænni mannfræði og norðurslóðum. Ég vinn með heimildamyndir fransks mannfræðings gerðar fyrir 30-40 árum síðan og velti fyrir mér mikilvægi sjónrænna mannfræðilega heimilda og þá sérstaklega fyrir þau samfélög sem þær voru unnar úr. Gætu þessar heimildamyndir, sem sýna veiðimenn,mismunandi veiðiaðferðir og lifnaðarhætti haft notagildi í grænlensku samfélagi í dag, t.d. í samfélagskennslu í grunnskólum.

Seinustu ár hafa Inuitar verið að taka meira og meira til sín í stjórn eigin landa og héraða. Nunavut, sjálfstjórnarsvæði Inuita í Kanada og grænlenska heimastjórnin eru stærstu skrefin sem tekin hafa verið undanfarið. Tungumálið hefur fengið sitt eigin skrifmál þannig nú er hægt að koma sögum og heimildum áfram á þeirra eigin tungumáli. Einnig sem tungumálið hefur fundið sér griðarstað á netinu sem er eins og klæðskerasaumað handa jafn dreifbýlum svæðum eins og byggð á norðurslóðum er.
Á Grænlandi hefur grænlenskan tekið við af dönskunni og orðin aðaltungumálið í skólum landsins. Hinsvegar vantar enn námsefni sem gerir grænlenskum gildum hærra undir höfði en þeim dönsku eða vestrænu. Með fólksfölda upp á 60.000 er augljóst að slíkt námsefni mun ekki verða til á einni nóttu. Hugmynd mín er að þangað til verði hægt að styðjast við heimildir eins og þær myndir sem ég er að vinna með.
Eitt aðalvandamálið í þeim efnum er hinsvegar hversu aðgengi að þessum heimildum er erfiður. Þær myndir sem ég er að vinna með eru allar nema ein "pirataðar". Ég hef verið í sambandi við franska sjónvarps skjalasafnið til að fá löglegar útgáfur af myndumum. Þrátt fyrir að ég vinni með manninum sem gerði myndirnar þá er þetta óskaplega flókið allt saman og mér tilkint seinast í gær, ógerlegt!
Sem leiðir að spurningunni, af hverju erum við yfirhöfuð að framleiða sjónrænar heimildir ef það er ekki hægt að nota þær? Til hvers að hafa endalaus gagnasöfn ef þau eru bara til að geyma en án þess að nota? Þetta er ekki einsdæmi, réttur til byrtingar á ljósmyndum er rosalega dýr og eitthvað sem venjulegur fræðimaður eða skólastofnun er ekki að fara út í.
Í háskólanum sem ég var í úti í London, í master í sjónrænni mannfræði, voru þær mannfræðilegu myndir sem til voru þar í safni langflestar "pirataðar", sama sagan er upp á teningnum í háskólanum hér í París. Og svo er verið að kvarta á sama tíma að fólk styðjist ekki nógu mikið við sjónrænar heimildir í rannsóknum sínum.
Vona að þetta svari í fljótri yfirferð þær spurningar sem ég er að glíma við. Hver dagur ber hinsvegar eitthvað nýtt í skauti sér, nýjar spurningar og ritgerðin fær ekki loka útlit fyrr en öllum spurningum hefur verið svarað.
Og jú, ég skrifa á frönsku. Var að spá í fyrst að skrifa á ensku og fá hana svo þýdda yfir á frönsku. En ég áttaði mig á því fjótt að það er ekki nóg að þýða orðin, heldur er það hugsunin á bak við orðin sem verður að komast til skila. Og hana er ekki hægt að þýða. Þannig að ég ákvað að skrifa sjálf á frönsku með hjálp stafsetningarforitsins í tölfunni. Tekur óendanlegan tíma... en þetta er doktorsritgerðin mín og ég verð að vera 100% að það komist til skila sem ég vil segja.
Meðfylgjandi mynd er af aðstöðunni úti í háskóla þar sem ég vinn.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Lögregluskýrsla og bólstraðar klósettsetur

Fór á lögreglustöðina í morgun og gaf skýrslu. Það var víst einhver gestur á hótelinu sem ég er að vinna á mánudagsmorgnum sem sagði að peningum hefði verið stolið af herberginu. Gesturinn, sem er kínverji held ég, lagði fram opinbera kvörtun við lögregluna þar sem hann sagðist hafa látið gestamótökuna vita af "ráninu". Það gaf sig hinsvegar enginn gestur fram við mig, þannig að öll sagan er mjög skrítin. Það hefur aldrei neitt horfið af þessu hóteli, ég er helst á því að þessi maður sé að búa til þessa sögu, enda ýmis atriði sem standast ekki hjá honum. Eins og númerið af herberginu sem hann gaf upp, er ekki til á hótelnu.
Allavega, mér þótti það nú bara sport að fara á stöðina og gefa skýrslu. Gæti alveg trúað því að það ætti vel við mig að vera rannsóknarlögreglukona, skoða mál frá öllum hliðum og spekjast um þau hægri og vinstri.
Kanski er þetta bara eðlilegt stig ritgerðarskrifanna, halda að allt annað gæti verið svo gaman að gera og spyrja sig, af hverju er ég eiginilega að skirfa þessa blessuðu ritgerð?
Er að koma mér í gírinn aftur eftir helgina. Frí í gær 8 mai, þennan dag 1944 var París frelsuð. Áttum því langa helgi. Á laugardaginn fórum við á markað upp við Nation. Skemmtilegur markaður með mikið af sveitaafurðum. Sölumennirnir eru heldur ekki jafn ágengir og hér á Aligre. Þar getur maður skoðað vörunar án þess að stokkið sé á mann og byrjað að troða inn á mann öllu sem til er.
Rigningin lá hinsvegar í loftinu og við ákváðum að taka næsta strætó eitthvað út í buskan. Þar sem við tókum annan strætó og svo þann þriðja. Þennan dag fórum við samtals í fimm strætóferðir, með hléum. Sem er það mesta sem ég hef gert hér í París. Horfðum á hverfin líða hjá, arkitektúr breytast, og fólkið með. Í 16 hverfi voru ekkert nema gamalmenni í vagninum. 13 hverfi, fólk af öllum hugsanlegum upprunum. Þetta var bara ansi notalegt.
Á sunnudagskvöldinu fórum við svo út að borða. Fundum okkur lítinn franskan veitingastað við rue Mouffetard. Í götu sem heitir rue du Pot de fer, "járnpottar gata". Engin bílaumferð er um þessa þröngu steinalöggðu götu á kvöldin og öll veitingahúsin setja út borð og stóla. Við sátum á næsta borði við fjölskyldu með 2 börn sem voru þarna með vinum sínum. Foreldrarnir vissu sannarlega hvað þau voru að gera þegar þau tóku sippiband með sér út að borða. Þarna sátu þau í rólegheitunum og borðuðu og strákurinn um 7 ára sippaði upp við næsta húsvegg og allir ánægðir.
Við fengum lítið borð á verönidinni, með kertaljósi og blómum. Ég fékk mér snigla í forrétt og Marwan fékk sér hörpudisk. Borðuðum dýrindis kjöt í aðalrétt sem við skoluðum niður með víni. Eftir fylgdu svo ostar og niðurskornir ávextir.
Eitt það merkilegasta við þennan stað var þó setan á klósettinu. Hún var bólstruð!!! Aldrei séð svoleiðis áður! Ótrúlega cool hugmynd. Einhverníma ætla ég að kaupa svona bólstraða klósettsetu.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Sumarblíða

Nú held ég að sumarið sé komið. Yfir 25 stiga hiti, örlítill andvari þannig að gardínurnar rétt bærast þó svo opið sé í gegn um íbúðina. Var reyndar bitin í nótt, rétt við nárann, frekar óþægilegur staður! En fylgir víst sumrinu. Ákvað að vinna heima í dag til að geta farið á þvottahús. Núna baða sængurver og handklæði sig í sólinni og þorna á met tíma.

Það er líka orðið bjart á kvöldin fram til að verða hálf tíu. Eftir að myrkvar liggur svo hiti dagsins enn í loftinu. Eitt af því sem gerir evrópska sumarið svo yndislegt. Framundan eru fimm mánuðir af blíðu hummm :) yndislegt! Þetta sumar verður líka frábrugðið því seinasta þegar Marwan var á lokasprettinum í ritgerðinni og við fórum ekki að njóta þess fyrr en hann var búinn að skila af sér í ágúst. Þetta verður gott sumar. Bara við tvö, sumar, rólegheit, og tími til að njóta lífsins saman.

Fórum annars í bíó á þriðjudagskvöldið, "The Inside Man", stórfín mynd sem alveg er þess virði að skella sér á. Er reyndar enn með titillagið sönglandi inni í höfðinu á mér, pínulítið pirrandi. En mynd sem ég mæli með.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Havana vindlar og SS pylsur

Hyper róleg helgi. Ákváðum að gera nákvæmlega ekki neitt eftir að hafa vel viðrað okkur með gestum 2 seinustu vikna. Láum bara heima í leti og horfðum á DVD. Enda veðrið til þess, þungbúinn himinn, rigningarskúrir, vindur og hitinn ekki yfir 14 gráðum. Ég fór reyndar á sunnudagskvöldið og hitti Unu og mömmu hennar sem er hér yfir langa helgi með Jóhönnu litlu. Komu með sendingu að heiman, ekta Havana vindla sem Inga og Siggi keyptu á Kúbu um páskana handa Marwan. Með í pakkanum var líka kúbverskt hálsmen handa mér, gert úr mismunandi baunum, litlum þurkuðum kaffibaunum sýnist mér í grunninn og svo skrautlegri baunir innanum. Þær komu með sendingu frá mömmu líka, SS-pylsur og Mills kavíar. Fékk líka 2 Mannlíf. Rosalega getur það verið gott að kíkja í íslensk blöð, þau eru uppfull af lesefni. Frönsku "konu" blöðin hafa svosum greinar og viðtöl líka, en þau eru mun styttri og ekki jafn djúft grafið. Einnig sem frönsku blöðin eru undirlögð af auglýsingum þannig það verður ekki mikið úr blaðinu. Margar þeirra mynda sem eru í íslensku blöðunum vekja einnig upp nostalgíu, þrá, löngun og væntumþykju til Íslands. Það er ótrúlegt hvað fúinn girðingarstaur getur haft sterk áhrif á mann.
Maí mánuður verður undirlagður í ritgerðarskrif. Mun leggja það sem búið er undir leiðbeinandann minn um miðjann júní. Best að koma einhverju skipulagi á þetta fyrir það. Ár eftir... get ekki beðið, á sama tíma og ég trúi því varla að þetta verði nokkurntíma búið.
eXTReMe Tracker