þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Montpellier

Hrukkan hræðilega er horfin og ég í þónokkuð betra jafnvægi. Vorum á hóteli í miðbænum, hvíldumst, nutum borgarinnar, borðuðum á veitingastöðum sem bjóða upp á rétti úr hráefni frá héraðinu, fórum niður að miðjarðarhafinu þar sem tærnar fengu að sprikla í köldum sjónum, hittum vini og nutum þess að vera til.

Montpellier er yndisleg borg, sérstaklega gamli hlutinn, þröngar götur sem fara ekki eftir nokkru skipulagi og það þröngar að engin bílaumferð kemst þar um. Reyndar er ekki mikil bílaumferð í borginni. Þar er öflugt sporvagnakerfi og mikið af götum lokaðar fyrir annari umferð. Meðfylgjandi götumynd úr gamla bænum er sannkölluð breiðgata miðað við þær margar. Þetta er einfaldlega borg sem verðskuldar að vera heimsótt.
Ég er strax farin að hlakka til að heimsækja borgina aftur næsta sumar.





miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Langþreyta og ný hrukka

Upp á síðkastið hef ég reglulega verið spurð hvort ég sé þreytt og það af fisksalanum, kaupmanninum í litlu mið-austurlanda kjörbúðinni á móti og af fólki sem er kanski ekki mér næst. Ég verð að viðurkenna að ég er alvarlega farin að þjást af langþreytu sem greinilega er ekki legur bara undir yfirborðinu. Orðin ennþá meira utanvið mig en vanalaega. Kem oft ekki út úr mér heilli setningu og ný hrukka hefur myndast við vinstra augað. Löng, djúp og óhuggnaleg í alla staði.
Þetta er fylgifiskur ritgerðarinnar og ég veit það. Það versta er að þessi þreyta á sjálfsagt bara eftir að ágerast. Ég reyni hinsvegar einungis að hugsa til mið og enda mars. Mið mars skila ég inn eintaki til leiðbeinanda míns svo hann geti hakkað ritgerðina í sig og sett út á öll littlu smáatriðin. Svo er komið að mér að laga og leiðrétta, en eins og ég segi þá hugsa ég ekki enn svo langt. Ég skila semsagt inn þessu eintaki 14 mars. Helgina þar á eftir byrjar ethnografíska kvikmynda hátíðin í gamla mannfræði safninu og stendur í viku. 2 dögum seinna fer ég til Egyptalands að undirbúa brúðkaupið okkar. Þrátt fyrir að hver dagur sé allt of stuttur og að ég þurfi alvarlega á fleiri klukkutímum í sólahringnum að halda, finst mér óendanlega langt þangað til.
Til að reyna að vinda aðeins ofan af mér hefur Marwan tekið sér frí yfir langa helgi í vinnunni og keypt lestarmiða handa okkur til suður Frakklands fyrir morgundaginn. Ég stefni því á að mæta galvösk til leiks á mánudaginn. Endurnærð og bætt af hafgolu miðjarðarhafsins.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Helgin

Eins og mér finnst ágætt að brjóta upp vanamynstur hversdagsins og leysa af í gestamótökunni á hótelinu annað slagið þá hefði það getað hitt á aðra helgi en akkúrat þessa. Vorum boðin í innflutnings og afmælisveislu út í sveit í gærkvöldi og komumst að sjálfsögðu ekki. 2 tíma akstur aðra leiðina sem er heldur mikið þegar ég er að vinna til átta á laugardagsvköldinu og byrja aftur átta á sunnudags morgni.

Við reyndum hinsvegar að gera gott úr gærkvöldinu sem var með ólíkindum milt miðað við febrúar mánuð. Löbbuðum niður að Notre Dame kirkjunni og borðuðum hálfpartinn úti á verönd á littlu kaffihúsi sem er í uppáhaldi hjá okkur þar í nágreninu. Vorlyktin í loftinu og ljúfur kvöldandvarinn mynti okkur á afhverju við búum hér. Á slíkum kvöldum veit ég ekki um fallegri borg en París.

Á dagskránni í kvöld er rólegt heimakvöld. Marwan sér um matinn, tók íslenska lambalund úr frysti veit ég og keypti ferskt grænmeti á markaðnum í morgun. Það verður ljúft að koma heim eftir langan dag og leifa honum að stjana við mig.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Valentínus

Heilagur Valentínus rann ljúflega niður með bleiku kampavíni í gær. Marwan kom heim frá Kaíró í fyrradag með fullt af myndum frá hótelinu og garðinum þar sem við ætlum að halda brúðkaupsveisluna okkar þann 6 apríl næstkomandi, sem er reyndar föstudagurinn langi! En það þýðir ekkert að hengja sig í einhver smáatriði þegar maður býr í margþjóða sambúð. Egypti og Íslendingur sem búa í Frakklandi, hér þýðir ekkert annað en sveigjanleiki hjá báðum aðilum, sem hingað til hefur gengið mjög vel. Mér líst stór vel á myndirnar, þetta verður án efa fallegt brúðkaup hjá okkur. Garðurinn er stór og hótelbyggingin er láreist. Hótelið er rétt við pýramidana og því töluvert frá miðbænum og virkar á mig sem vin í stórborg í jaðri eyðimerkurinnar. Þetta verður yndislegt og ég hlakka svo til.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Leiðindar nágranninn ég

Enn einusinni þarf ég að banka uppá hjá nágrönnunum hérna niðri og biðja um eitthvað sem dottið hefur út um gluggan hjá mér. Koddaver, "uppáhalds" handklæðið hans Marwan og núna seinast flísteppi sem fíkur úr gluggasillunni þar sem það baðar sig í sólinni og niður á þakskyggnið fyrir neðan, rétt fyrir framan íbúðina á neðri hæðinni.
Teppið sem um ræðir núna reif sig fast í gær í hörðum haglélsskúr sem brast á uppúr þurru og ég of sein að átta mig á. Málið er að ég hef ekki séð tangur né tetur af nágrönnunum síðan og er hrædd um þar sem vetrarfrí í skólum skella á nú um helgina að þau séu farin eitthvað í burt. Ferskjubleigt teppið hangir nú á járnstöng sem skagar undarlega út úr húsinu og lítur frekar draslaralega út. Ég get samt ekki verið annað en fegin að það hafi ekki dottið allaleiðina niður á skítugt þakskyggnið. Nú er bara að bíða og sjá hvenær nágrannarnir koma heim til að setja á sig fallegt afsökunarbros og sjá hvort þau eru ekki til í að tegja sig enn einusinni út á þakskyggnið.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Brúðkaupsundirbúningur

Marwan fór til Kaíró í gær vegna vinnunnar og tók með sér litaborða sem sýni af litum sem okkur (mér) finnast fallegir fyrir blómaskreitingar og annað fyrir brúðkaupið okkar. Tengdamóðir mín tilvonandi sem sér að mestu leiti um skipulagningu og undirbúinig hefur ákveðið að fresta árlegri Evrópuferð sinni þetta árið þannig að allur undirbúiningur fer fram í gengnum síma og í gegnum Marwan.
Eins og karlmönnum sæmir við slíkan undirbúining er hann hinsvegar alveg rólegur yfir þessu öllu. Þegar ég spurði hann t.d. hvort við myndum láta prenta nöfnin okkar á servétturnar þá fékk ég svarið að hótelið þar sem veislan er haldin og sér einnig um veitingarnar útvegi servétturnar!
Á sama tíma og ég hef í ýmis önnur horn að líta þessa dagana og ætti að vera voða fegin að hótelið sjái bara um þetta án þess að ég komi þar mikið nálægt. Þá pirrar þetta mig einhverstaðar innan í mér. Treysti sjálfsagt ekki hótelinu, sem ég þekki ekki í landi sem er ekki mitt að gera eitthvað sem ég yrði ánægð með. Kanski ætti ég bara að vera karllæg í hugsun og vera þar með viss um að þetta reddist einhvernvegin. En á sama tíma þá er þetta brúðkaupið okkar og þar með viðburður sem manni þykir merkilegri en svo að það reddist einhvernvegin.
Þegar öllu er á botnin hvolft er samt aðalatriðið að fagna ást okkar að viðstöddum fjölskyldu og vinum. Hvernig servétturnar eru á litin, blómin, dúkarnir, maturinn.... sjálfsagt reddast þetta allt saman.
eXTReMe Tracker