fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Eiffel Turninn


Náði þessari annars artý fartý mynd af Eiffelturninum seint í gærkvöldi þar sem við vorum í leigubíl á leiðinni heim úr matarboði. Þokan lá þétt yfir borginni og gerði hana þögla og yfirgefna eins og þéttri þoku er einni lagið.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Haust í Nóvember

Fílukastið sem kom í mig um daginn vegna rigningarinnar er löngu fokið út í veður og vind. Mikið getur maður orðið vanþakklátur við að búa við sæmilegt veður allt árið um kring. Ef ég man rétt fagnaði maður hverjum góðviðrisdeginum á Íslandi í stað þess að fara í fílu þegar ringdi. Haustið hér hefur verið með allra besta móti og myndirnar sem við tókum í Boulogne skólendinu í útjaðri Parísar í gær tala án allra útskýringa.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Rigning

Rigningin er mætt. Laufin eru fallin af trjánum. Kvöldið skellur á um fimmleitið núna og þar sem jólaljósin eru enn ekki komin upp er París orðin full grámygluleg og ég með. þessi mynd er einmitt tekin á því skemtilega mómenti þegar ég settist á kaffihús við Bastillutorgið á leiðinni heim í þeirri von að sitja af mér mesta skúrinn í fyrradag. Leðurstígvélin mín voru orðin svo hundblaut að ég var hrædd um að fara í gegnum þau á hverri stundu. Er samt ekki alltaf gaman í París!

Til að kóróna fjörið þessa dagana var þvottapokanum mínum stolið úti á þvottahúsi áðan. Ég þurfti því að hlaupa heim aftur ná í annann poka út á þvottahús aftur og ná í þvottinn. Ekki að þetta sé löng leið, þvottahúsið er bara hérna úti á horni, en þegar rigningunni pissar niður telst þetta til algers óþarfa og leiðindar pirrings hér á bæ.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Nóvember kvöld

Veturinn á að vera kominn en enn eru moskítóflugur á sveimi. Höfum fundið tvær núna á seinustu dögum. Leit á hitamælinn á apotekinu úti á horni áðan á leiðinni á markaðinn og í rökkrinu sýndi hann 15 gráður. Er það ekki bara ótrúlegt þegar komið er inn í miðjan nóvember. Ekki það að ég sé að kvarta. Mér líður ósköp vel.

Skammdegið hér er hinsvegar farið að láta á sér kræla. Ég er farin að borða hafragraut á morgnana og búin að taka mig á í lýsinu sem er sterkt skammdegismerki. Á kvöldin komum við yfirleitt beint heim eftir vinnu, kveikjum á kertum og horfum á sjónvarpið eða DVD. Fengum aðra seríu af Desperate Housewives lánaða og höfum legið yfir henni á kvöldin. Marwan er síst skárri en ég í að hvetja til gláps á þeim dömum.

Kvöldið í kvöld verður eitthvað í þá áttina. Verð með Sólflúru í matinn sem ég keypti hjá fisksalanum mínum núna áðan. Ætla að bera hana fram með graskers teningum, krydduðum með fersku parslei og steikt uppúr lauk og hvítlauk. Veit ekki enn hvort ég geri hrísgrón eða jafnvel tagitelli með. Sé sjálfsagt til hvort Marwan langar meira í og læt það ráðast af því.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Stress og stífelsi

Átti fund með professornum mínum í gær út af ritgerðinni. Því er ekki að leyna að ég er komin inn á stress tímabilið, þetta verður því greinilega stífur vetur framundan. Annars er ekkert eftir að gera en að klára þessa ritgerð. Verst hvað það er ógeðlega mikil vinna framundan og mér finst ritgerðin full af einhverju bla bla bla !

föstudagur, nóvember 03, 2006

Gamlar myndir

1. nóvember kom veturinn með trukki. Vetrarkápur, hanskar og húfur hefur allt verið tekið fram. Glugganum í eldhúsinu sem stendur alltaf opinn er nú lokað yfir nóttina.

Rölti inn í litla búsáhaldabúð hér við hliðina áðan þar sem er komið fullt af jóladóti. Keypti litla seríu og þegar ég var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að setja hana réðst ég hömlulaust uppúr þurru á körfu sem er hér uppi í hillu. Þetta er ein af þessum körfum sem lætur ekki mikið yfir sér en tekur drjúgt við. Þangað fara hlutir og liggja í langan tíma. Þar fann ég meðal annars metrokort af London, uppþornaðan penna, rafhlöður og geisladisk með myndum af okkur Þórdísi síðan hún kom og heimsótti mig í febrúar 2003.

Hér sitjum við á littlum veitingastað á Montmartre hæðinni

Þórdís niður við stútfulla Signu

Við að frjósa úr kulda uppi í Eiffel turninum

Á þessum tíma var ég bara búin að búa hér í hálft ár. Ég leigði gamalt vinnukonuherbergi undir kvisti á Avenue Victor Hugo í 16hverfi. Herbergið var um 9 m2 en með sturtu. Það er að segja, það var búið að planta sturtuklefa upp við einn vegginn rétt við útidyrahurðina. Ekki nema 2 skref upp úr rúminu á morgnana og í sturtu.

Á herberginu voru 2 stórir gluggar, eða 4 eftir því hvernig maður telur þar sem þeir opnuðust um miðjuna og út... held það séu hreinlega kallaðir "franskir gluggar" í þeim var hinsvegar bara einfalt gler og það varð frekar kalt í herberginu mínu yfir veturinn enda bara einn lítill ofn til að hita herbergið og svo rafmagnsplata til að elda á sem hitaði vel útfrá sér. Hurðin fram á gang var heldur ekki mjög þétt að neðan og fékk ég þannig alltaf "frískt loft" inn í herbergið.

Í herberginu góða... "eldhúsið" og sturtuklefinn


Það besta við þessar vistarverur var að klósettið var frami á gangi. Ég þurfti að fara fram út og yfir þröngar svalir (ég bjó á 8 hæð...með liftu) við hinn enda svalanna gekk maður aftur inn undir þakskyggnið og inn í bygginguna. Þar var kósettið sem fyrstu 2 mánuðina var svokallað "tyrkneskt klósett", þ.e. bara gat. Hamingjusamlega var "evrópskt" klósett sett upp rétt eftir að ég flutti inn. Einnig þurfti maður að passa að taka með sér regnhlíf ef ringdi þar sem svalirnar voru undir stjörnubjörtu. Þórdís fékk reyndar flog þegar hún sá leiðina á klósettið enda sjúklega lofthrædd en þetta vandist fljótt og svei mér ef hún læknaðist ekki bara á lofthræðslunni.


Samt fór alls ekki illa um mig. Ég var bara nokkuð ánægð þarna í kyrunni minni, enda bjó ég þar bara fram á sumar.

Sakna svosum einskis þaðan heldur, nema þá helst útsýninsins að Eiffel turninum.

eXTReMe Tracker