Heimsóknir - Tengdó og Brynja
Heil vika frá seinasta bloggi! Heilmikið gerst og ég lítið heima. Matarboðið hér heima á sumardaginn fyrsta með tengdó tókst vel og ég held ég hafi bara staðið undir nafni sem sá eðalkokkur sem hún var búin að heyra af. Rúsínan í pylsuendanum voru náttúrulega íslensk nóa og sirius páskaegg sem gerðu lukku.
Á fösudagsmorguninn kom svo sumarið í París. Yfir 20 stiga hiti og sól. Við fundum okkur veitingastað í Mýrinni, sem er homma og gyðingahverfið hér í París fyrir þá sem ekki vita. Og borðuðum úti í fyrsta sikpti þetta árið. Yndisleg tilfinning. Þetta er gamalt hverfi er með fullt af þröngum götum sem liggja hver í sína áttina og því ekki mikið um bílaumferð, en endalaust líf af fólki. Þessi mynd af okkur Mögdu er einmitt tekin þar sem við erum að skoða matseðilinn.
Hún fór svo aftur til Ítalíu á laugardeginum og flaug út til Egyptalands á mánudeginum eftir 5 vikna dvöl í Evrópu, með of stuttu stoppi í París að eigin sögn. En á það ekki einmitt að vera svoleiðis, til að mann hlakki strax til að koma aftur. Svo verður næsta skipti sem við hittumst vonandi í Egyptalandi. Með sólhatta og blævængi.
Laugardagurinn var ekki bara viðburðarríkur að þessu leiti heldur líka af því hún Brynja kom í bæinn. Mikið var gaman að hitta hana :) Kom með háskólanum frá Svíþjóð í safna ferð. Röltum saman í sólinni og blöðruðum á íslensku. Elskan hann Marwan er svo yndislegur að hann var ekkert að stressa sig á því að skilja ekki umræðurnar. Um kvöldið fórum við stelpurnar svo á bar á rue de Lappe, við Bastilluna með einni lítilli sænskri sem leifði strákunum af næsta borði gefa sér undir fótinn og svo var skifst á símanúmerum. Rosalega er ég fegin að vera 34 ára en ekki 24 ára og vera ekki í þessum pakka. Geta farið út með vinkonum og átt stelpukvöld án þess að nokkur sé að spá í einhverjum strákum.
Þrátt fyrir að Brynja hafi verið hér í prógrami og ég föst í minni vinnu og fundum þá náðum við samt að eiga góðar stundir saman. Sérstaklega í gær, seinasta daginn hennar. Fórum í búðarráp á Champs Élisées. Næst þegar hún kemur ætlar hún að koma með hæla og stæl og þá förum við og gellumst um. Sé okkur alveg máta kjóla hjá Hugo Boss, Chanel og Chloé. Þessi mynd af okkur er tekin fyrir utan Zara þar sem við sáum geðveika gull hæla... rúmur mánuður í útsölur.... ég þrauka.
Brynja fór síðan aftur til Svíþjóðar seinnipartinn í gær. Mikið er gott að fá vinkonur sínar í heimsókn. Þessar frönsku vinkonur komast enganvegin með tærnar þar sem þið hinar hafið hælana. Knús og kossar til ykkar allra, mér þykir svo vænt um ykkur.