föstudagur, mars 23, 2007

Æsifrétt

Í dag byrtist grein í grænlenska dagblaðinu Sermitsiak, sem unnin er uppúr viðtali við mig í sambandi við rannsóknina mína. Viðtalið var tekið inni á litlum bistro hér í borg þar sem við blaðamaður röbbuðum í rólegheitum yfir rauðvíni og léttum hádegisverði. Í dag sé ég svo greinina í hálfgerðum æsifréttastíl þar sem frönskum heimildarmyndum um Grænland er hreinlega haldið frá Grænlendingum. Þetta mynnir mann ennfrekar á að trúa ekki bókstaflega öllu sem maður les eða sér.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Tilhlökkun

Nú er vika þar til ég flíg út til Kaíró. Kuldakastið sem skollið er á fær mig enn frekar til að hlakka til. Sullar við frostmark yfir nóttina og kemst mest upp í um átta gráður yfir daginn með nýstandi vindi og leiðindum. Fæst einganvegin til að koma mér út úr húsi, svo miklu betra hérna heima við tölfuna með heitann tebolla.
Kaíró bíður mín hinsvegar með vori og sól. Ég hlakka til að skoða hótelið og garðinn þar sem við ætlum að halda veisluna okkar, ávkarða uppröðun á borðum og skreitingar. Egypska venjan er víst að brúðhjónin sitji á stalli í einskonar hásæti. Þrátt fyrir að tendó þyki þetta ætti að vera þannig þá hefur Marwan víst þvertekið fyrir það, og sagt að við ætlum að sitja til borðs eins og allir aðrir. Ég verð nú að segja að ég sé fegin því, tilhugsunin að sitja eins og sýningargripur allt kvöldið var ekki alveg að gera sig. Allt í kringum þessa veislu er hinsvegar svo allt öðruvísi en ég hafði hugsað mér hérna í denn að brúðkaupið mitt myndi líta út. Enda datt mér aldrei í hug að ég myndi giftast Egypta. Ég hafði ímyndað mér littla athöfn við fallegan íslenskann foss, berfætt í léttum sumarkjól með blóm í hárinu og á eftir yrði grillpartý og bjór.
Þessi veisla er hinsvegar eitthvað sem líkist meira draumi að prinsessubrúðkaupi með 1001 nótt ívafi. Ekki svo að skilja að ég sé ekki spent. Auðvitað er ég spennt og svo auðmjúk að eiga svona yndislega fjölskyldu og vini sem koma um langan veg að gleðjast með okkur. Ég er hinsvegar minna stressuð yfir smáatriðum eins og hásæti/ekki hásæti, þetta lagið eða eitthvað annað. Allur pakkinn er mér svo framandi að ég hef litla skoðun enn á hvernig þetta eigi allstaman að vera, svona enn sem komið er. Sjáum til hvort það breytist þegar ég mæti á svæðið.
Það eina sem skiptir raunverulegu máli er að fagna ást okkar og lofast hvort öðru í augliti fjöskyldu og vina.
;) ég hlakka svo til

Efnisorð:

fimmtudagur, mars 15, 2007

Léttir

Uppkastið komið í hendurnar á leiðbeinandanum mínum og kynningin sem ég var með á verkefninu á sama tilefni gekk vel. Fékk fínar spurningar frá öðrum sem vinna við sömu rannsóknarstofnun og ég. Spurningar sem fá mig m.a. til að hugsa hvar ég þyrfti að styrkja verkið og hvað er það sem vekur mesta áhuga annara. Sú gagnrýni sem ég býst við af leiðbeinandanum mínum er að fyrsti hlutinn sé of langur en sá þriðji ekki nógu vel unninn ennþá. Á fund með honum aftur 25 apríl. Þá kemur þetta allt í ljós hvert ég stefni næst í ritgerðinni.
Þó svo þetta hafi einungis verið uppkast af því sem ég er þegar búin með til að fá leiðsögn með framhaldið þá kom ótrúlegur léttir yfir mig í gær. Yndisleg tilfinning og hvetjandi. Marwan er kominn aftur heim frá Kaíró þar sem allt er að verða klappað og klárt fyrir brúðkaupið okkar. Ég fer svo út að kvöldi 27 mars til að leggja lokahöndina á undirbúininginn með Mögdu mömmu Marwans. Svo kemur íslenska hersingin seint á sunnudaskvöldinu 1 apríl.
Á laugardaginn hefst hin árlega mannfræði kvikmyndahátíð í gamla mannfræðisafninu. Ég er ekki búin að skoða dagskránna enþá en ég er alvarlega að hugsa um að sitja hjá í ár og slappa frekar af þessa viku, sofa, fara í göngutúra í sólinni, lesa, njóta vorsins með mannsefninu mínu og undirbúa mig fyrir að verða frú Soliman.

sunnudagur, mars 11, 2007

klukkustundir óskast...

Sólarhringurinn ansi þétt setinn þessa dagana. Komst að því að hrukkan hræðilega, sem aftur lét kræla á sér, var ekki annað en krumpa sem myndast þegar ég hef setið með vinstri hönd undir vinstri vanga og ýtt þannig kinninni nettilega uppávið, myndast eftir nokkra klukkutíma stöðu í viðkomandi stellingu.
Var á norðurslóða þingi hér í París um helgina, eða frá fimmtudegi þar til í gærkvöldi. Ansi stíf dagskrá og að sjálfsögðu mjög mis áhugaverð. Mikið rætt um loftslagsbreytingar eins og oft á slíkum þingum. Það virðist snerta fólk meir að ísbirnir séu svangir og því í hættu heldur en að fólk á norðurslóðum sé oft illa statt. Ætli það sé einfaldlega ekki of mikið af svöngu fólki í heiminum til að það teljist áhugavert?
Ráðstefnunni lauk með framsetningu á nýrri alþjóðlegri yfirlýsingu um samvinnu norðurslóða að aðrbærari framtíð bæði náttúru- og menningarlega séð. Grænlensk vinkona mín sem einnig er mannfræðingur varð næstum orðlaus yfir hversu auðvelt þetta væri. Sagði að grænlendingar hefðu dreymt um að koma á svipaðri yfirlýsingu í langan tíma en ekki getað. Það skipti greinilega öllu máli að þekkja rétta fólkið. Grænlendingar búa hinvegar í þeim raunveruleika að danir stjóna landinu, þó svo það sé svokölluð heimastjórn þá eru flest stórfyfirtæki og menntastofnanir stýrðar af dönum, sem eiga ekki gott með að láta af því hugmyndafræðilega valdi sem þeir hafa. Gærnlengingar þurfa því endalaust að passa sig á því sem þeir standa fyrir innan stofnunarinnar eða akademíunar til þess hreinlega að vera vissir um að halda stöðunni sinni. Ömurleg aðstæða sem ákveðinn hópur af grænlensku menntafólki er búið að fá sig fullsatt af. Ég hlakka hinsvegar til að sjá hvernig þessari yfirlýsingu verður framfylgt.
Skiladagur á uppkasti nálgast óðfluga og aðrir stórir dagar fylgja þar þétt á eftir. Hef engann tíma fyrir brúðkaupsundirbúning, hann verður tekinn í þéttri törn rétt fyrir brúðkaup, draumar um ljósatíma til að ná af mér mesta blámanum og annað eru flognir út um gluggann, ég verð komin með doktorsgráðu í tarnavinnu eftir páksa.

Efnisorð:

föstudagur, mars 02, 2007

Óreiða og lyndi röskun

Marwan fór með hádegisvélinni til Kaíró í morgun og verður í viku. Mér er því ekkert að vanbúnaði að hella mér í botnlausa óreiðu. Hér verður því vakað yfir ritgerðar skrifum þegar þannig stendur á mér og sofið þegar því verður ekki lengur við komið. Allt sem lítur að almennu heimilishaldi eða sjálfsviðhaldi verður látið til hliðar. Engir skipulagðir matartímar og allt er leifilegt hvenær sem er sólarhringsins, það sem líkaminn biður um fær hann. Í dag var t.d. hádegisverðurinn rautt nautakjöt og tæpur líter af mjólk, get mér þess til að ég hafi verið í próteinþörf?
Einu föstu punktar dagsins eru veðurfregnirnar í ríkissjónvarpinu rétt fyrir átta á kvöldin. Ekki svo að skylja að veðrið muni skipta mig miklu máli þessa næstu viku. Sjálfsagt hluti af persónulegri lyndi röskun eins og það er svo fínt kallað í dag.
eXTReMe Tracker