fimmtudagur, desember 28, 2006

Hátíð í bæ

Mikið eru seinustu dagar búnir að vera yndislegir. Inga og Siggi komu til Parísar 22 des og voru hér yfir hátíðarnar með okkur þangað til í gær. Þau komu færandi hendi með hangikjöt, laufabrauð, smákökur frá mömmu og ógrynni af jólapökkum.
Á aðfangadag var ég með villibráð í aðallrétt, hjartarkjöt sem bráðnaði í munninum á okkur. Ostrur að frönskum sið í forrétt sem runnu ljúft niður. Þetta er í fyrsta sinn sem við erum með ostrur heima og er Marwan nú orðinn útlærður ostruoppnari eftir fagmannlega takta með hnífinn. Á jóladag var hefðbundið hangikjöt sem Marwan er einnig farið að þykja ómissandi með öllu tilheyrandi. Á annan í jólum á hann svo afmæli og fórum við öll út að borða. Þetta hefur því verið ein alsherjar átveisla, vel krydduð með hlátri, ást, vináttu, kærleika, hlýhug... Ískápurinn er enn fullur af mat, hangikjöts afgangar, fois gras, ostar.. við erum að hugsa um átfrí í kvöld og fara í bíó, enda boðin í mat annaðkvöld til vina sem ég hlakka mikið til að fara til.

sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðilega hátíð

mánudagur, desember 18, 2006

Jólatjútt


Seinasta helgi var gleðihelgi hér í París eins og sjálfsagt annarstaðar. Seinasta helgi fyrir jól og ekki seinna vænna en að halda upp á það. Fórum í jólaboð þar sem "dress code" var að strákar áttu að vera í svörtu að neðan en hvítu að ofan en stelpur öfugt, svörtu að ofan og hvítu að neðan. Nicolas, einn úr vinahópnum sem er kokkur töfraði fram nokkra rétti og hver og einn kom með a.m.k eina kampavínsflösku. Síðan var dansað eitthvað framundir morgun. Vorum reyndar eitthvað slöpp skötuhjúin og vorum komin heim um þrjúleitið. Það er af sem áður var þegar helgarnar voru til að djamma. Núna eru þær til að slappa af og hlaða batteríin fyrir vikuna.... og við erum ekki einusinni með börn! Kanski er þetta líka skamdegið sem hefur þessi áhrif.

föstudagur, desember 15, 2006

Egypskt matarboð

Vorum boðin í mat til egyptsks kunningjafólks í gærkvöldi. Borðuðum egypskan mat, innanum fyrirferðarmikil oflökkuð egypsk húsgögn og horfðum á egypska sjónvarpið. Áttum ágæta stund þó svo konan hafi ekki setið með okkur til borðs heldur verið meira í því að þjóna. Okkur leið báðum eins og við værum frekar gestir hans en þeirra. Maðurinn er sjálfsagt kominn eitthvað yfir fimmtugt en konan er á mínum aldri, jafnvel yngri. Kvöldstundin og spjallið við konuna var alltsaman mjög mannfræðilega áhugavert, einnig sem Nada littla dóttir þeirra sem lék á alls oddi í hvert sinn sem lag heyrðist í egypska sjónvarpinu, sem var ansi oft, og dansaði á egypska vísu, með hægri hendina reista upp í loftið og þá vinstri beigða fyrir framan sig.

Það súrrealískasta við kvöldið var þó eftir matinn þegar við sátum í sófanum og röbbuðum saman yfir tebolla kom egypskur þáttur um Ísland í sjónvarpinu. Og ég sem hélt að við værum svo lítil og óþekkt! Greinilega ekki lengur

fimmtudagur, desember 07, 2006

Hafragrautur og hellirigning

Hafragrautur og jólalög. Það gerist ekki mikið betra til að koma sér í gírinn fyrir daginn, dúða sig, setja upp regnhlífina og þramma af stað út í dembuna. Ritgerðin silast lítið eitt áfram á hverjum deginum. Komst á góða slóð fyrir nokkrum vikum síðan sem ég hef getað rakið, flest öll þau rit sem ég hef þurft að leita í eru til á safninu sem gefur ótrúlega ánægju. Vonum bara að þetta haldi svona áfram, enda ekki lítil vinna sem er eftir til að koma skikkanlega frá mér því sem ég vil segja með þessari ritgerð.

mánudagur, desember 04, 2006

Jólin á pósthúsinu

Fór á pósthúsið áðan með jólagjafirnar. Ég var greinilega ekki sú eina sem lét af því verða í dag. Beið 35 mínútur í röð, ekki nema 4 básar oppnir. Þessar 35 mínútur sem ég eyddi á pósthúsinu var sama konan allan tímann sem einokaði einn afgreiðslubásinn. Mikið fór það í taugarnar á mér hvað hún var lengi... einnig fyrir hvað hún var í asnalegum ljósbláum buxum og ljótri rauðri peysu við. Verulega gott hjá mér líka að láta þetta fara svona í taugarnar á mér.
Vorum boðin í afmælispartý um helgina til vinafólks okkar sem býr rétt utan við París. Þó þau búi það nálægt að það sé ágætis útsýni yfir París og að Eiffelturninum þá er stax mikill munur. T.d. sést vel í stjörnur og Marwan talaði um að loftið væri svo hreynt að hann verkjaði í lungun þegar hann andaði að sér. Ég held nú reyndar að það hafi frekar verið út af kvöld kulinu.
eXTReMe Tracker