fimmtudagur, júlí 27, 2006

Þrumuveður

Í gærkvöldi og frameftir nóttu gekk yfir það mesta þrumuveður sem ég hef nokkurntíma upplifað. Marwan sagði það sama, aldrei hafði hann upplifað annað eins. Himininn logaði klukkutímum saman. Eldiningarnar dönsuðu yfir himinninn meðan aðrar brotunuðu ofar og lýstu upp skýin. Mér sem þykir þrumuveður verulega heillandi varð ekki um sel en sat sem límd við gluggan. Hitinn lækkaði töluvert við þetta og í nótt sváfum við ágætlega miðað við aðstæður.
Sem betur fer ef hægt er að segja svo varð bilun í vélinni sem flytja átti mömmu og pabba til mín í gærkveldi. Mér hefði ekki liðið vel vitandi af þeim í flugvél í þessu veðri. Þau eiga að fara í loftið um hádegi að frönskum tíma, missa því heilann dag úr ferðinni, sem er grautfúlt, en ég er fegin að þau flugu ekki í þessum eldglæringum.
Myndirnar eru teknar á litlu ófullkomnu myndavélina okkar sem tekur myndir 2-5 sec eftir að maður ýtir á hnappinn... þannig yfirleitt væri eldingin lögnu liðin þegar myndin er loksins tekin... nema í gærkvöldi... ég fæ gæsahúð við tilhugsunina um breytt loftslag á jörðinni og þetta sé það sem koma skuli

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Hitamælirinn úti á horni

Mamma og pabbi eru að koma í kvöld og verða í viku. Pabbi sem þolir illa hita yfir 20°c er held ég ekkert of bjartsýnn á þetta. Mamma er búin að spyrja mig tvisvar hvort þau þurfi ekki að koma með jakka með sér. Þetta er greinilega hiti sem íslendingar eiga erfitt með að ímynda sér. Jakkar og peysur eru alls óþarfar hvort sem er á degi eða kvöldi.

Veðurspáin er þó eitthvað að skána og á morgun er spáð þrumuveðri og gæti farið allt niður í 27°c sem er nú orðinn þolanlegur hiti, meiraseigja fyrir Íslendinga. Við sjáum svo hvort þeir standa við þetta, annars verðum við bara inni á loftkældum listasöfnum.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Frönsk þjónustulund

Ég veit ekki hvort hitinn gerir það að verkum að fólk er pirraðra en annars eða hvort ég taki einungis betur eftir því.
Á föstudagskvöldið fórum við skötuhjúin í Montparnasse hverfið. Fyrst settumst við á verönd þar ég ætlaði að panta mér bjór á dælu en einungis ef hann væri kaldur. Við spurðum því þjóninn hvort dælubjórinn væri ekki vel ferskur en sá svaraði algerlega sviplaust "því miður ég drekk ekki bjór og get því ekki svarað því". Marwan benti honum á að við værum ekki að falast eftir hans eigin smekk heldur gæði vörunnar sem hann væri að selja, en þjónninn þráaðist við og sagðist ekki hafa hugmynd. Á endanum kom bjórinn kaldur og svalandi.
Eftir að hafa kælt okkur niður löbbuðum við áfram og rákumst á lítinn ítalskan veitingastað með sætri verönd. Þrátt fyrir að hafa takmarkaðan áhuga á heitum mat þá höfum við borðað lítið annað en hinar ýmsu útfærslur af sallötum undanfarna daga og létum slag standa í pizzuát. Á næsta borð við okkur var fullorðinn maður sem borðaði einn. Eftir matinn pantaði hann sér ís og spurði þjóninn greinilega að einhverju sem ég heyrði ekki en svarið frá þjóninum var "því miður herra minn, ég borða ekki ís og hef því ekki hugmynd um það"! Á sama stað fengum við reikninginn á borðið áður en maturinn kom á það. Ekki viss um að ég fari þangað aftur að borða.
Ég ætla vona þetta sé hitabylgjan sem geri fólk svona úrillt en ekki að þetta sé að verða einhver lenska meðal parískra þjóna að fría sig frá öllum nánari upplýsingum af matseðlinum.

föstudagur, júlí 21, 2006

Hitabylgja

Byrja á því að segja frá því að ferðasagan frá Egyptalandi er komin á link hér til hægri.

Hitabylgjan virðist ekkert vera í rénum. Þeir voru búnir að lofa "betri" helgi. Það er að segja með lægri hita, meiri skýjum og jafnvel þrumuveðri sem kemur sér alltaf vel eftir svona hita til að losa aðeins um loftið. Við fengum smáskúr í fyrrinótt og það virðist vera öll rigningin sem við fáum. Eftir helgi átti svo að hitna aftur og sá hiti á að vara í um 20 daga. Þetta er farið að minna á hitabylgjuna 2003 þegar okkur var haldið gangandi á fréttum að þetta væri alveg að verða búið.
Parísarborg hefur opnað sína árlegu "Paris Plage" eða Parísar strönd sem ætti að hjálpa okkur að kæla okkur aðeins niður. Lokað er um alla bíla umferð meðfram Signu og fínum fjörusandi dreift um allt og pálmatrjám plantað, gosbrunnum til að baða sig í er komið upp hingað og þangað, sundlaugum, kaffihúsum, petang svæðum, línuskautaleigu og svo mætti lengi telja. Það er hinsvegar ekkert gaman að reyna að sólbaða sig þar í mannmergðinni eins og sardína með nefið uppi í rassi á næsta manni og fátt sem minnir á lokuðu ströndina sem ég var á fyrir viku síðan. Hinsvegar er gaman að labba um svæðið og njóta annars þess sem boðið er uppá, leggjast í hengirúm með bók eða fá sér svaladrykk og horfa á mannlífið og hlusta á lifandi tónlist.
"Ströndin" var bara opnuð í gær og við höfum ekki enn lagt leið okkar þangað. Fór hinsvegar í Vincennes skógarlundinn í morgun þar sem ég var í nágreninu, myndin er þaðan. Alltaf jafn súrmjólkur hvít. Labbaði hringin í kringum vatnið og naut gróðurylmsins. Var reyndar hugsað til þess að mér hefði alveg yfirsést að bera á mig sólvörn þar sem ég var ekki lengur í útlöndum!! Ég var semsagt niður við vatn, óvarin í hádegissólinni í ermalausum bol...hættulegra getur það ekki orðið! kanski ég slysist til að fá á mig smá roða!

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Myndir

Það eru komnar inn nýjar myndir á linkinn hér til hægri, notendanafnið er rosa_rut @ hotmail.com aðgangsorðið er myndir, gekk eitthvað erfiðlega að tengja þetta beint án aðgangsorðs. Glöggir sjá að það eru ekki margar myndir af manninum mínum. Útskýringin er sú að hann var að vinna mest allan tíman sem kom svosum ekki á óvart.
Ég pikka svo inn ferðasöguna á næstu dögum, enda gengur ekkert að vinna í ritgerðinni í þessum hita. Í dag eru opinberar tölur fyrir París 36°c Mamma og pabbi að koma eftir viku vonandi hitinn lækki eitthvað áður.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Komin heim

Komin heim og hef það á tilfinningunni að hitinn í Egyptalandi hafi einungis verið undirbúningur undir hitabylgjuna hér í Frakklandi. Í Egyptalandi var ég allavega niður við sjóinn og altaf frísk gola sem lék um mann. Í Kaíró eru hús loftkæld og bíllinn hans Marwan líka... hér er hinsvegar enginn sjór, engin gola, alger molla og íbúðin okkar ekki loftkæld. Fer í sturtu 3 á dag og hef dregið fyrir glugga til að hleipa sólinni ekki inn, kæli niður alla potta strax eftir notkun fyrir það litla sem við hitum til að borða. Erum svo mest úti á kvöldin.
Löbbuðum meðfram Signu í gærkvöldi og fylgdumst með grafalvarlegum tangódanösurum, túristum á skoðunarferðar bátum sem liðu framhjá, fólki af öllum stærðum og gerðum í "pik-nik", fólki að kissast, haldast í hendur, með barn í kerru, að skokka. Mikið er gott að vera komin heim aftur ;)
Ég er að vinna í því að setja inn myndir, gengur eitthvað brösulega. Pikka líka inn ferðasöguna bráðlega.
Hér er ein af mér að læða kossi á Svinxinn. Með mér á myndinni er Mariam 5 ára bróðirdóttir Marwan.
eXTReMe Tracker