Frönsk þjónustulund
Ég veit ekki hvort hitinn gerir það að verkum að fólk er pirraðra en annars eða hvort ég taki einungis betur eftir því.
Á föstudagskvöldið fórum við skötuhjúin í Montparnasse hverfið. Fyrst settumst við á verönd þar ég ætlaði að panta mér bjór á dælu en einungis ef hann væri kaldur. Við spurðum því þjóninn hvort dælubjórinn væri ekki vel ferskur en sá svaraði algerlega sviplaust "því miður ég drekk ekki bjór og get því ekki svarað því". Marwan benti honum á að við værum ekki að falast eftir hans eigin smekk heldur gæði vörunnar sem hann væri að selja, en þjónninn þráaðist við og sagðist ekki hafa hugmynd. Á endanum kom bjórinn kaldur og svalandi.
Eftir að hafa kælt okkur niður löbbuðum við áfram og rákumst á lítinn ítalskan veitingastað með sætri verönd. Þrátt fyrir að hafa takmarkaðan áhuga á heitum mat þá höfum við borðað lítið annað en hinar ýmsu útfærslur af sallötum undanfarna daga og létum slag standa í pizzuát. Á næsta borð við okkur var fullorðinn maður sem borðaði einn. Eftir matinn pantaði hann sér ís og spurði þjóninn greinilega að einhverju sem ég heyrði ekki en svarið frá þjóninum var "því miður herra minn, ég borða ekki ís og hef því ekki hugmynd um það"! Á sama stað fengum við reikninginn á borðið áður en maturinn kom á það. Ekki viss um að ég fari þangað aftur að borða.
Ég ætla vona þetta sé hitabylgjan sem geri fólk svona úrillt en ekki að þetta sé að verða einhver lenska meðal parískra þjóna að fría sig frá öllum nánari upplýsingum af matseðlinum.
1 Comments:
Þetta er nú einmitt eins og ég hefði haldið að franskir þjónar væru. Fúlir, snobbaðir og pirraðir. Tek það fram að ég hef komið til Frakklands og þekki enga frakka. Allt hreinir fordómar hahaha.
Gaman að heyra að yfir höfuð séu þeir ekki svona grumpy.
Skrifa ummæli
<< Home