mánudagur, apríl 30, 2007

Þau sem heima sátu

Ég bara verð að benda á frábæra framhaldssögu á blogginu hennar Lóu skrifaðri af pabba hennar og fjallar um þegar hann passaði táninginn, skessuna og tröllið í vikutíma á meðan foreldrarnir voru í Kaíró. Fyrsta færsla er frá 24.04 og heitir þau sem heima sátu. Skemmtilega skrifuð frásögn sem fær bæði munnvikin til að færast upp á við

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Meinhægt

Dibie, leiðbeinandinn minn var að sjálfsögðu ekki tilbúinn með athugasemdir á uppkastið, hef það helst á tilfinningunni að það hafi verið lagt á skrifborðið og svo ekki meir. Klassíkt! Ég man svo vel eftir þessum tíma hjá Marwan, endalaus barningur að fá yfirlestur þangað til á seinustu stundu. Þetta er ekki til að flýta fyrir það er alveg ljóst. Næst læt ég hann bara fá hluta af ritgerðinni til að fara yfir, bæði til að verkið fyrir hann verði yfirstíganlegra og einnig til að ég verði ekki stopp meðan hann er að lesa. Hinsvegar var það alveg nauðsynlegt fyrir hann að fá allt núna til að fá yfirsýn yfir ritgerðina og hvert ég er að fara með hana.
Annars er allt meinhægt, reyni að hafa ofanaf fyrir mér með lestri, reyndar ekki síður af mogganum og hinum ýmsu bloggsíðum eins og fræðilegri textum. Rakst meðal annars á frétt í mogganum að maður á þrítugsaldri hefði verið stoppaður í umferðinni í Reykjavík þar sem hvorki hann né 6 ára gamalt barn í bílnum voru í öryggisbelti. Nýkomin frá Kaíró þar sem barnabílstólar þekkjast ekki og belti í bílum eru yfirleitt bara í framsætum ef þau eru þá til staðar. Oftast situr fólk með ung börn og jafnvel kemur fyrir að ökumaður sitji með barn í fanginu, þá stingur þessi frétt í augu, ekki bara að maðurinn hafi verið stoppaður af lögreglu sem mér þykir reyndar sjálfsagt heldur að þetta þyki það fréttnæmt athæfi að það komi í moggann þar sem fréttin trónir sem ein af 5 mest lestnum fréttum augnabliksins.
Er ekki gott að búa í landi þar sem hlutirnir eru ekki alvarlegri en þetta?

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Heim í heiðardalinn

Mikið er alltaf gott að koma heim hversu góð sem ferðin hefur verið. Seinustu dagarnir í Kaíró voru ansi þétt settnir í heimsóknum og hittingum. Hitti meðal annars íslenska stelpu, Sigrúnu Vals sem býr úti í Kaíró með eiginmanni og tveimur börnum, gaman að spjalla við hana. Svo voru það fjölskylda og vinir sem sáu um þéttskipaða dagskrá.
Maginn að sjálfsögðu ekki kominn í lag enn, tæpur mánuður í Egyptalandi þýðir sitt. Veit annars ekki hvað það er sem ég þoli ekki. Ég passa mig alltaf vel að borða ekkert hrátt, þar með talið sallat og grænmeti en ég hef það á tilfinningunni að ég sé hreinlega með strengi/harðsperrur í maganum af krömpum þannig að hvað sem fer ofan í hann fær hann til að engjast. Ég þygg því glaðlega öll ráð við meltingarvegar og maga harðsperrum.

Giftingin tókst vel, áttum góða fjölskyldustund heima þann 5 apríl þar sem við skrifuðum undir samninginn og settum upp hringana. Veislan á föstudeginum tók örlítið meira á taugarnar þar sem hún var töluvert stærri og meirihlutinn fólk sem ég hafði aldrei séð áður og eins gott að koma vel fyrir. Veðrið framan af degi var betra en hægt var að hugsa sér og ég skellti mér áhyggju laus í spa á hótelinu með mömmu og Ásu systir. Seinnipartinn fór hinsvegar að blása verulega og ég að stressast með því þar sem veislan var utandyra.

Svörin frá hótelinu voru hinsvegar alltaf ... þetta gengur yfir eftir klukkutíma. Þegar rúmum klukkutíma seinna stólar voru farnir að fjúka um koll og ég að falast eftir því hvaða staðfestingu þeir hefðu fyrir því að veðrið gengi yfir og ég fékk hið klassíska egypska svar "inshaa Allah" sem þýðir ef guð lofar varð ég ansi svartsýn á framhaldið.

Mestu svartsýnina náði ég að hrista af mér inni á svítu þar sem mamma og systur hjálpuðu mér að komast í kjólinn, mála mig, festa slörið osfrv. Þegar allt var tilbúið og ég beið ein úti á verönd og Ingveldur inni í svítu að bíða eftir Marwan og ljósmyndurunum fór að rigna. Ég gat ekki stressast legnur, vissi að gestirnir færu að tínast að hvað og hverju og lítið hægt að gera upp úr þessu nema brosa að öllu saman og gera sér grein fyrir að veislan yrði sjálfsagt eftirmynnanlegri en gert var ráð fyrir í uppafi.

En, guð lofaði og rétt áður en við mættum í veisluna lyngdi og við fengum þetta yndislega veður á meðan veislan stóð þannig jafnvel var hægt að kveikja á kertum á borðunum. Þegar allar serimoníur með brúðartertu og vandarköstum voru afstaðnar og allir búnir að borða vel fór að blása hressilega aftur, rétt svona til að reka á eftir gestunum !

Allt fór því vel á endanum og höfum við fengið að heyra bæði að rigning sé heillamerki eins að brúðkaup sem fari fram á stormasömum degi séu þolmikil. Ekki hægt að vera nema ánægður með slíkt veganesti. Fjölskyldurnar tvær, sú íslenska og egypska náðu einnig vel saman og blessunin yfir giftingunni ekki síst sú að fá þennan stóra hóp frá Íslandi sem gerði þetta að sannköllaðri fjölskyldu giftingu. Takk fyrir komuna.
Brúðkaupsferðin til Sharm el Sheik var einnig yndisleg, sváfum mikið, borðuðum vel og fjölbreytt. Allt frá því að borða á Hilton hótelinu í að panta pizzu upp á herbergi eitt kvöldið. Busluðum í sjónum innan um kórala og marglita fiska. Hreint óttúleg upplifun.
Á morgun tekur svo alvaran við á ný þar sem ég á vital við leiðbeinandann minn til að heyra það sem hann hefur að segja um fyrstu útgáfuna af ritgerðinni. Kanski er það þessvegna sem ég er með magaharðsperrurnar?

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Sandstormur

Hér í Kaíró er skollinn á þessi líka fíni sandstormur sem enginn veit hvað varir lengi, kanski fram á kvöld, kanski í nokkra daga. Lyktin í loftinu er einkennilegt og ég er með sandbragð í munninum jafnvel hér innan húss. Sat lengi úti á svölum (sem eru lokaðar með glerveggjum) í morgun og dáðist að veðrinu og gulri byrtunni sem því fylgir. Tengdamóðir mín dáist minna, enda er allt hér innanhúss orðið þakið fínu ryki sem virðist smjúa inn um lokaða gluggana. Glugga hlerar eru hafðir lokaðir nema á 2-3 stöðum en hljóðin í vindinum og því sem hann rífur í berast inn tiol okkar. Gatan fyrir framan húsið er svo til auð og ekki mikið af fólki á ferli.

Mér finst þetta mikið ævintýri og sórhríðar unnandinn ég gat ekki látið vera að finna mér ástæðu til að gera mér ferð út í veðrið. Ákvað að dagurinn væri tilvalinn til að baka brauð og þar sem tengdamóðir mín er ekki mikið í slíku var ekkert til á heimilinu til þess þannig ég “neyddist” til að búa mig upp og fara út í búð tengdamóðurminni enn til undrunar þar sem auðveldara væri að byðja annaðhvort húsvörðinn að sendast eða fá sent beint úr búðinni. Ég taldi hinsvegar hvorki húsvörðinn né búðina í stakk búna að skilja nákvæmlega hvað ég vildi.
Fann svona sirka það sem ég var að leita að og þrammaði heim á leið, bryðjandi sand með pírð augun. Hér heima fynst hinsvegar hvorki mælikönnur né vogar þannig brauðið sem nú er inni í stóra gasofninum hennar Mögdu er gert eftir auganu. Einnig sem hitastigið sem ég skaut á í byrjun (þar sem ég hef aldrei notað gasofn) var greinilega allt of lágt þannig ég pota nú reglulega í kúmenbrauðið í ofninum til að sjá hvernig því líður á meðan olifu og sólþurkuðu tómat bollurnar hefast í rólegheitunum.

mánudagur, apríl 16, 2007

Gifting og Hunangstungl

Takk fyrir fallegar kveðjur í okkar garð bæði í comment kerfinu og í tölfupósti. Giftingin var yndisleg... þó það hafi ringt aðeins ;) segi nánar frá öllu síðar. Brúðkaupsferðin var líka ljúf sem dísætt hunangstungl, reyndar svo sæt að við frestuðum heimferðinni um viku og komum ekki heim fyrr en 21 apríl. Þar til í næstu viku....

kossar
Frú Soliman,

P.s. bæði Brynja og Lóa eru búnar að skrifa smá ferðalýsingu á bloggunum sínum, sjá tengla til hægri.
eXTReMe Tracker