fimmtudagur, apríl 27, 2006

Heimsóknir - Tengdó og Brynja



Heil vika frá seinasta bloggi! Heilmikið gerst og ég lítið heima. Matarboðið hér heima á sumardaginn fyrsta með tengdó tókst vel og ég held ég hafi bara staðið undir nafni sem sá eðalkokkur sem hún var búin að heyra af. Rúsínan í pylsuendanum voru náttúrulega íslensk nóa og sirius páskaegg sem gerðu lukku.

Á fösudagsmorguninn kom svo sumarið í París. Yfir 20 stiga hiti og sól. Við fundum okkur veitingastað í Mýrinni, sem er homma og gyðingahverfið hér í París fyrir þá sem ekki vita. Og borðuðum úti í fyrsta sikpti þetta árið. Yndisleg tilfinning. Þetta er gamalt hverfi er með fullt af þröngum götum sem liggja hver í sína áttina og því ekki mikið um bílaumferð, en endalaust líf af fólki. Þessi mynd af okkur Mögdu er einmitt tekin þar sem við erum að skoða matseðilinn.

Hún fór svo aftur til Ítalíu á laugardeginum og flaug út til Egyptalands á mánudeginum eftir 5 vikna dvöl í Evrópu, með of stuttu stoppi í París að eigin sögn. En á það ekki einmitt að vera svoleiðis, til að mann hlakki strax til að koma aftur. Svo verður næsta skipti sem við hittumst vonandi í Egyptalandi. Með sólhatta og blævængi.

Laugardagurinn var ekki bara viðburðarríkur að þessu leiti heldur líka af því hún Brynja kom í bæinn. Mikið var gaman að hitta hana :) Kom með háskólanum frá Svíþjóð í safna ferð. Röltum saman í sólinni og blöðruðum á íslensku. Elskan hann Marwan er svo yndislegur að hann var ekkert að stressa sig á því að skilja ekki umræðurnar. Um kvöldið fórum við stelpurnar svo á bar á rue de Lappe, við Bastilluna með einni lítilli sænskri sem leifði strákunum af næsta borði gefa sér undir fótinn og svo var skifst á símanúmerum. Rosalega er ég fegin að vera 34 ára en ekki 24 ára og vera ekki í þessum pakka. Geta farið út með vinkonum og átt stelpukvöld án þess að nokkur sé að spá í einhverjum strákum.

Þrátt fyrir að Brynja hafi verið hér í prógrami og ég föst í minni vinnu og fundum þá náðum við samt að eiga góðar stundir saman. Sérstaklega í gær, seinasta daginn hennar. Fórum í búðarráp á Champs Élisées. Næst þegar hún kemur ætlar hún að koma með hæla og stæl og þá förum við og gellumst um. Sé okkur alveg máta kjóla hjá Hugo Boss, Chanel og Chloé. Þessi mynd af okkur er tekin fyrir utan Zara þar sem við sáum geðveika gull hæla... rúmur mánuður í útsölur.... ég þrauka.
Brynja fór síðan aftur til Svíþjóðar seinnipartinn í gær. Mikið er gott að fá vinkonur sínar í heimsókn. Þessar frönsku vinkonur komast enganvegin með tærnar þar sem þið hinar hafið hælana. Knús og kossar til ykkar allra, mér þykir svo vænt um ykkur.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Páskar

Þá er tengdó loksins komin. Áttum sunnudaginn saman bara við tvær. Það var svaka fínt. Náðum að kynnast allt öðruvísi heldur en ef Marwan hefði verið með okkur. Fundum okkur veitingarstað efst á Champs Élysées og blöðruðum. Hún kom hlaðin gjöfum líka, gaf mér gullhálmen með nafninu mínu, Egypska papírus mynd sem ég var voða ánægð að fá. Var búin að biðja Marwan einhverntíma að koma með eitthvað egypskt skraut á heimilið ... svona til að vega aðeins upp á móti því íslenska, hann horfði á mig og stakk upp á því að koma með fánann til að hengja upp á vegg!!! Ótrúlegt hvað karlmenn geta stundum verið miklir karlamenn! Hún kom líka með ljósgrænan stein sem búið er að skera bjöllu út í. Þetta er bjalla sem boðar hamingju samkvæmt egypskri hjátrú. Svo kom líka stórt súkkulaði páskaegg frá Ítalíu.
Magda er svaka fín og næs að vera með og við voða ánægðar með hvor aðra :) Leiðinlegt bara hvað ég er að vinna mikið þessa dagana. Hún er í íbúð sem foreldrar Emmanuelu, konu Moetazar bróðir Marwans eiga í 15 hverfi. Hún röltir í búðir á daginn og svo hittum við hana á kvöldin og borðum saman. Hún þekkir París vel, enda bjó hún hér í 9 ár, en segir margt hafa breist.
Stefnan er sett á bíó í kvöld, mynd sem heitir Fire Wall ef mig mynnir rétt. Annaðkvöld ætlum við svo að elda páskamáltíðina hérna heima. Hún hefur heyrt þessar svaka sögur af eldamennsku minni... það er eins gott að standa undir nafni.

laugardagur, apríl 15, 2006

Íslenskir dagar

Týpiskur morgunverður hjá mér er tebolli og ristað brauð með Mills Kavíar (sérinnfluttum af vinum og vandamönnum). Allir halda auðvitað að maður liggji bara í croissants og frönsku sætabrauði og svörtu kaffi, en svo er ekki. Að sjálfsgðu er ég fylgjandi því að maður aðlagi sig og sínar venjur að því landi sem maður hefur ákveðið að búa í. En rosalega sem maður er alltaf fastur í sínum matarvenjum.

Svandís systir hennar Ingveldar var hér um daginn með Sigurjóni manninum sínum. Þau komu með ss-pylsur handa mér, bitafisk, lakkrís og síðast en ekki síst Nóa og Siríus páskaegg :) Undanfarið hafa því verið íslenskir dagar hér á rue d'Aligre. Með tímanum hef ég líka komið mér upp ágætis safni af pottagaldurs kryddum, aðalbláberjasultu frá mömmu sem ég á yfirleitt á lager. Núna í seinasta skipti sem ég var á landinu keypti ég líka kötlu fiskirasp, það er sko ekki sama bragðið af raspinu hér. Þarafjölvítamín, nokkra steipta osta, mexikó blöndu, hvítlauksost og piparost. Já, er það ekki nokkuð sterkt að flytja ost með sér til Frakklands! Þrátt fyrir þeirra 360 osta þá eru þeir mjög lítið í að "krydda" ostana eins og íslendingar gera. Það eru helst littlar geitaosts bollur sem þeir rúlla upp úr graslauk og kryddjurtum, mjög gott, en það vantar meiri fjölbreytileika í þetta hjá þeim.

Núna er það líka orðinn fastur passi að kaupa lambafile. Marwan staðfestir að ekkert veitingahús í París bjóði upp á jafngott kjöt. Sjálfsagt rétt hjá honum ;) Og alveg furðulegt að við skulum ekki flytja meira út af íslensku lambi. Gera út á sælkera veitingahús í Evrópu frekar en danskar kjörbúðir, enda virðast danir bara vera með snúð út í allt sem kemur frá íslandi í augnablikinu. Já, það hlýtur að vera sárt að horfa upp á fyrrum nýleduna og molbúaþjóðina Ísland bara standa sig ágætlega án danskrar "hjálpar". Lóa, þú mátt allveg commentera á þetta ;)

Á morgun verða semsagt brotin íslensk páskaegg. Ég og teingdó sem kemur í kvöld. Marwan þarf að vera á fundi á morgun úti í Kairó og kemur því ekki fyrr en á mánudaginn. Páskamáltíðinni verður því frestað fram til fimmtudags. Sem er kanski í stíl við það trúfrjálslydni sem ríkir hér á heimilinu.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Home alone

Marwan er úti í Kairó þessa viku og fram á laugardag. Ég er semsagt bara ein í kotinu. Frekar rólegt. Vinn mest heima þessa dagana. Það gengur samt ekki alltaf eins og maður hafði vonað og eftir páska ætla ég að koma mér aftur út í háskóla í aðstöðuna sem ég er með þar. Ég hef heldur ekki verið í neinum fyrirlestrum síðan í byrjun mars. Það var allt lagt í rúst í mótmælunum. Ég held að sumir hafi ekki alveg verið með á nótunum hverju nákvæmlega var verið að mótmæla úr því að háskólar og menntaskólar voru lagðir í rúst sumir hverjir. En núna er búið að draga þessi blessuðu lög til baka og allt ætti að fara í sama farið aftur.
Á sama tíma og ég skil ekki alltaf rökhugsun frakka, að það sé í besta lausnin að mótmæla með þessum hætti, þá er ég náttúrulega ánægð núna að þessi lög voru dregin til baka. Þó þau nái bara til fólks sem er undir 26 ára, þá er alltaf spurningin hvort það sé bara byrjunin og í framhaldinu þau yrðu gerð að almenni reglu. Að það yrði hægt að segja upp fólki eftir 2 ára vinnu án nokkurra útskýringa. Bravó fyrir konur í barnsburðarleifi t.d.
Já, þó það sé gott að búa hér að sumu leiti, þá spyr maður sig hvort það sé þess virði. Ekki það að hinir möguleikarnir eru að flytja til Kairó.
Ekki viss um að ég yrði mikið ánægðari með rétt minn og möguleika þar. Og svo er það náttúrulega landið mitt fallega. En hvað færi Marwan að gera? Vinna á leikskóla ... með doktor í hagfræði? Sé hann engan veginn í þeim pakka.
Semsagt í bili er það París. Maður lítur bara á björtu hliðarnar og er þakklátur fyrir hvað maður hefur, spítir í lófana og heldur áfram.
Enda komið vor og París aldrei fallegri, öll tré í blóma og lífið að taka við sér.

sunnudagur, apríl 09, 2006

36000 hetjur

Í morgun var hið árlega Parísarmaraþon hlaupið, skokkað. Keppendur voru alls 36.000, sem er engin smá mannmergð fyrir lítinn Akureyring. Hlaupið var frá Sigurboganum efst á Champs Élysées þvert yfir París að Bois de Vincennes í austurhlutanum og svo aftur til baka með útúrdúrum. Fyrir vikið var lokað fyrir alla bílaumferð í nærliggjandi götum. París breytti algerlega um svip. Götur sem venjulega eru stíflaðar í báðar áttir af bílaumferð voru yðandi af hlaupandi fólki, brosandi út að eyrum, veifandi í sjónvarpsmyndavélarnar. Ég lét mér nægja að fylgjast með í sjónvarpinu þegar mannhafið flæddi af stað niður Champs Élysée breiðgötuna, en fór út í mínu hverfi til að sjá þegar hlaupið var þar um. Þegar ég kom upp á horn var fólk út um allt að fylgjast með, klappa og hrópa kvatningarorðum til hlauparanna. Einhverstaðar frá öðru horni barst hljómurinn frá brassbandi sem spilaði fyrir þá sem vildu hlusta og mikil stemming í gangi.
Bestu hlaupararnir voru löngu farnir framhjá, en fyrir langflesta er hlaupið bara til að vera með en ekki til að vinna. Þarna var fólk á öllum aldri og nokkrar stelpur sem í daglegu tali teljast kanski ekki beint "hlaupalega" vaxnar, en sem veigruðu sér greinilega ekki við það að hlaupa maraþon. Þvílíkar hetjur.
Rosalega hefur maður gott af því að horfa á þessa ótrúlegu almennu gleði og bjartsýni sem fylgdi þessum hlaupurum. Rúmir 40 kílómetrar! Það þarf enga smáræðis bjartsýni í það! Og að gera þetta af því þau langar til þess!!
36.000 manns, hlupu 40 kílómetra í morgun af því það er góð hugmynd! Heilbrigðara getur þar varla orðið.

laugardagur, apríl 08, 2006

Jæja, þá er maður kominn inn í hinn merka heim bloggara. Ákvað að slá til eftir msn við Ingveldi, sem náði að sanfæra mig um að ég lifði bara nokkuð viðburðarríku lífi. ;) takk Ingveldur, ég verð nú að viðurkenna að strax við það að vera komin með sína eigin síðu, þar sem maður getur sett inn sína þanka og deilt þeim með örum er lífið orðið þónokkuð viðburðarríkt. Hvort þetta er hinsvegað hugsað til að deila heimspekilegum þönkum með samborgurum sínum eða til að hrista af sér vangaveltur dagsins....

Þetta fyrsta blogg mitt er allaveg ætlað til að skipta aðeins um hugsun í höfðinu.... og kanski til að slóra aðeins. Setið fyrir framan tölfuna í allan dag og gengið misvel, eins og alltaf þegar ég ákveð að vinna heima. Horfði í þúsundasta skiptið á fyrstu myndina hans Malaurie. Þá sem ég legg aðaláherslu á í ritgerðinni og í þetta skiftið með skeiðklukku, þar sem ég tók tíman á hvað frásögnin, "commentaires", tók mikinn tíma í myndinni. Rétt tæpar 20 mínútur af myndinni eru með frásögn sögumans, hinar rúmar 30 mínúturnar sem eftir eru horfir maður bara á myndirnar, heyrir brakið í snjónum, urrið í ísnum, gólið í hundunum, ýlfirð í vindinum, mannahljóð, dýrahljóð og vélahljóð. Einnig sem við heyrum fólkið tala sín á milli... á grænlensku... án þess að vera textað. Þetta er náttúrulega mynd sem gerð var fyrir franska sjónvarpið fyrir 40 árum síðan...og margt breyst ... nema kanski að þeim er enn illa við að texta það sem sagt er.

Kvöldið fer svo í áframhanldandi rólegheit, hangs, lestur og sjónvarpsgláp. Svo sjáum við til hversu mikið dregur á daga mína og hversu dugleg ég verð að deila nýjum þönkum.... kveðja í bili
eXTReMe Tracker